Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

þriðjudagur, september 28, 2004

Aðeins betri

Samt ekki hress. Fer ekkert í ræktina í dag, það er á hreinu. Ætla nú samt að reyna að hafa mataræðið í lagi. Vigtin sýndi enn 82,6 kg, urr, finnst það ekkert skemmtilegt >:(

mánudagur, september 27, 2004

Lasin og með brjálaða nammilöngun

Já, svona er það. Ég meira að segja sendi kallinn út í sjoppu að kaupa súkkulaði handa mér, venjulegt sykursúkkulaði. Ætla bara að leyfa mér það núna og vorkenna mér smá. Er bara komin upp í ca 800 kkal fyrir daginn svo kaloríulega séð hef ég efni á einu súkkulaði. Læt kolvetnin liggja á milli hluta núna.

Blööö!

Var nú ekkert mikið að passa mig þessa síðustu næturvakt. Missti mig svo sem ekkert í neina svaka óhollustu, en át bara örugglega allt of mikið af öllu. Líður bara alls ekki vel í dag, sem er svo sem ekkert sérstaklega tengt átinu mínu í nótt. Vissulega er ég næstum kílói þyngri í dag en í gær, líður eins og ég sé með tonn af bjúg á mér, er bólgin og úttútnuð, að drepast í hálsinum og allt of illa sofin. Þessir tvö yngstu fóru ekki á leikskólann í dag vegna kvefs og hósta, og þau eru bara búin að vera gjörsamlega eins og hundur og köttur, slást og rífast, öskra og æpa... ekki neitt voðalega auðvelt að reyna að hvíla sig þegar svoleiðis er.

Ætla að brugga mér smá Olludjús, verst að hann á eiginlega að standa yfir nótt. En gott að eiga hann.

Ekki séns í helvíti að ég hafi orku til að fara í líkamsrækt í dag.

sunnudagur, september 26, 2004

Smá meira ;)

Hér er ein í viðbót, minnikona, komin í átaksbloggið :D

Annars er ég búin í ræktinni og líður bara svaka vel. Ætla að skella mér í bað (nennti ekki í sturtu á líkamsræktarstöðinni) og slaka vel á áður en ég fer svo að vinna.

Ein næturvakt eftir ;)

Síðasta næturvaktin í bili í nótt. Ég stalst ekki í neitt nammi síðustu nótt, en át mig þvílíkt sadda af grænmeti með léttri ídýfu. Jú og svolítið low carb súkkulaði. Það var nú allt í lagi bara ;) Jæja skvísur, þarf að drífa mig í ræktina ef ég á að ná að æfa fyrir lokun.

laugardagur, september 25, 2004

2 næturvaktir eftir

Oh þessar næturvaktir stundum. Freistaðist í brjóstsykur sem einn vinnufélaginn tók með sér, og einnig 3 kremkexkökur :S Fuss og svei. Virðist samt ekki hafa haft nein áhrif á vigtina, en ef ég geri þetta aftur þá slepp ég pottþétt ekki svo vel eina ferðina enn. Ætla bara að taka með mér mitt low carb nammi í nótt, það er þó skárra en þetta sykurnammi. Ætla svo bara að skera niður grænmeti og búa mér til létta ídýfu og taka með. Ætla ekkert að skrifa niður máltíðirnar núna, enda eru þær allar í rugli hvort sem er þegar ég er á svona næturvöktum. Veit ekki hvar ég á að láta einn dag byrja og annan enda.

föstudagur, september 24, 2004

Næturvaktir framundan

Og þá fara náttúrulega allar máltíðir í rugl. Annars er ég búin að éta pizzu í morgunmat og pizzu í hádegismat, hehe. Fékk mér svo salat í miðdegisverð. Svona er dagurinn búinn að vera:

Morgunmatur: 1 sneið low carb pizza.
Hádegismatur: 1 sneið low carb pizza. 1 msk. kókosolía.
Nart: Ca 20 gr low carb súkkulaði.
Miðdegisverður: Ferskt salat með kjúklingi, fetaosti og ólívum. Kesam dressing.
Nart: Ca 20 gr low carb súkkulaði og 8 stk. low carb brjóstsykursmolar.

Gerir um 1330 kkal. og 17,5 grömm kolvetni.

Ætla að leggja mig núna fyrir næturvaktina, svo ég reikna ekki með að éta neitt meira fyrr en þá einhverntíman í nótt. Góða helgi stelpur.

fimmtudagur, september 23, 2004

PIZZA!!!!!!!!!!

Oh hvað ég er sööööööödd. Var að háma í mig dýrindis low carb pizzu með ógeðslega góðu áleggi. Setti á hana pizzusósu, ost, rauðlauk, ólívur, gráðost og salami. Ætlaði nú að setja pepperoni en ruglaðist á bréfum, hahaha, svo pizzan mín er með salami. En hún er sko ekkert verri samt ;) Át kannski aðeins of mikið af henni, var svo sem ekkert með neitt mikið léttmeti á henni, hehe. Prófa kannski næst að gera með einhverju sem er kaloríuminna ;) En pizzan var bara mjög góð. Svolítið maus að fletja deigið þar sem það er frekar seigt og vill alltaf skreppa saman aftur. En tókst nú samt ;)

Svona var dagurinn:

Morgunmatur: 2 speltbrauðsneiðar með L&L, salami og harðsoðnu eggi. 1 msk. kókosolía.
Nart: 18 gr low carb súkkulaði.
Hádegismatur: Salat með fetaosti, ólívum og skinku, smá Kesam dressing.
Orkubiti: 18 gr low carb súkkulaði, 3 stk low carb brjóstsykursmolar.
Kvöldmatur: 2 sneiðar low carb pizza.
Kvöldnart: 4 low carb brjóstsykursmolar.

Heildin gerði um 1550 kkal. og 29 grömm kolvetni.

Fór líka í ræktina og var svaka dugleg ;)

Netið gott hjálpartæki fyrir megrun

I tímaritinu Journal of American Medical Association segir frá rannsókn sem sýnir að reglubundin og skipulögð aðstoð í gegnum internetið gefur góða raun í baráttunni við fitupúkann. 91 manneskja í yfirþyngd, á aldrinum 18-60 ára, tóku þátt í rannsókninni. 65 þeirra fengu aðstoð í gegnum netið í meira en 6 mánuði. Rannsóknin sýndi að hópurinn sem fékk aðstoð í gegnum internet/tölvupóst léttist meira en þeir sem ekki fengu slíka aðstoð.

Tekið af Slankenett

Þarna sjáiði stelpur, þetta átaksblogg er alveg snilldarhjálpartæki :D

miðvikudagur, september 22, 2004

Ein okkar mætt aftur

Endilega kíkið á Chubby, hún er komin aftur ;)

Gaman í dag :D

Fékk pakkann með vörunum frá www.sykurlaust.is í dag :D Hlakka rosalega til að prófa pizzumixið. Verður gaman að geta borðað pizzu og vera laus við helling af kolvetnum og slæma samvisku ;)

Annars fór ég á foreldrafund í kvöld á leikskólanum, og þar var auðvitað boðið upp á kökur og snúða. Ég var sko alveg á nippinu að fá mér sneið, en varð svo hugsað til Gerrit og hennar filósófíu. Hugsaði sem svo að ef ég fengi mér sneið þá yrði ég bara fúl og spæld út í sjálfa mig með slæma samvisku. En ef ég léti kökurnar eiga sig yrði ég svaka ánægð með mig. Einbeitti mér svo að fína low carb namminu sem beið mín heima og ákvað að sleppa kökunum... og var auðvitað svakalega ánægð með mig :D

Matarlega var dagurinn svona:

Morgunmatur: Enginn, svaf bara ;)
Hádegismatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Miðdegisverður: Ferskt salat með rækjum, fetaosti og ólívum. Kesam dressing. 1 msk. kókosolía.
Kvöldkaffi: 1 sneið speltbrauð með L&L og osti.
Kvöldnart: Nokkrir low carb brjóstsykursmolar og ca 40 gr low carb súkkulaði.

Þetta gerði um 1300 kkal. og 17 grömm kolvetni.

Var 82,1 kg í morgun :D

þriðjudagur, september 21, 2004

Fínn dagur ;)

Alveg er nú svona eggjasuðutæki rosalega sniðugt. Að ég skuli ekki nota þetta meira. Ég ætla sko að fara að gera það. Stórsniðugt að harðsjóða egg og hafa þau ofan á brauð. Ég vaknaði nefninlega svo seint að ég hafði ekki tíma að steikja mér egg og beikon. En í staðin skellti ég eggjum í suðutækið og lét þau soðna á meðan ég var að snurfusa mig inni á baði. Fékk mér svo eina speltbrauðsneið með áleggi og millisoðið egg með. Fínn morgunmatur alveg ;)

Var dugleg í vinnunni, innihaldið úr einum Läkerolpakka fékk að fara upp í mig sem nart yfir daginn. Jújú, ég át líka hádegismat ;)

Kom svo heim, fékk mér kolvetnasnautt súkkulaði sem smá orkubita, eldaði svo fisk handa liðinu og dreif mig síðan í ræktina þegar fjölskyldan var búin að borða. Ég ákvað að borða ekki rétt áður en ég færi að æfa og át því fiskinn bara þegar ég kom heim. Fékk mér svo smá eftirrétt áðan ;)

Morgunmatur: 1 soðið egg, 1 speltbrauðsneið með L&L, osti og skinku.
Nart: 1 pk. Läkerol.
Hádegismatur: Eggjahræra ásamt grænmeti, spekeskinku og spægipylsu.
Orkubiti: Ca 30 gr kolvetnasnautt súkkulaði.
Kvöldmatur: Steiktur ufsi með rósakáli og L&L út á.
Kvöldkaffi: Kesam með jarðarberjum og strásætu.

Samtals var þetta um 1400 kkal. og 30 gr. kolvetni. Get alveg sætt mig við það ;)

Annars var ég svo svakalega ánægð með mig í púlinu áðan. Púlsinn minn hélst svo stöðugur á Orbitrekkinu. Var í kringum 160-170 mestmegnið af tímanum, hækkaði aðeins í restina þegar ég tók sprettinn, en fór aldrei yfir 180. Var á svona 65 í hraða (veit ekki alveg fyrir hvað þetta stendur, held bara að þetta séu snúningar á mínútu) mest af tímanum og fór svo í 70-75 í restina. Þegar ég var að byrja í þessu rauk púlsinn minn sko auðveldlega yfir 190 og samt var ég þá ekki á meiri hraða en svona 60-65 í mesta lagi ;) Svo tek ég líka eftir að púlsinn er fljótari að lækka aftur þegar ég slaka á eftir púlið, heldur en hann var áður. Og meira að segja sko þá voru einhverjar megagellur við hliðina á mér að puða, reyndar örugglega svona um tvítugt, en púlsinn hjá þeim (já ég var að gægjast) var strax kominn í 180-200 eftir nokkrar mínútur á Orbitrekkinu. Hahaha, verð nú að viðurkenna að það hlakkaði smá í mér að vera með betra þol heldur en þær :Þ Ójá, ójá, ég er ánægð með mig í dag, tíhí ;Þ

mánudagur, september 20, 2004

Freistingar, freistingar *grrrrr*

Jájá, skil ekkert í þessum sjúklingum sem halda að þeir séu að gera svo mikið góðverk með því að gefa manni súkkulaði og annað góðgæti. Piff sko. Og skil ekkert í sjálfri mér að standast ekki freistinguna. Annars var þetta reyndar bara ekkert voða góður dagur, samt heldur ekki hræðilegur. Bara svona dagur þar sem maður er ekkert fullkomlega ánægður með sig, en samt ekki að farast úr samviskubiti eftir eitthvað svaka sukk. Svona leit þetta út í dag sem sagt:

Morgunmatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Hádegismatur: 2 speltbrauðsneiðar með L&L, osti og salami.
Millibiti: 30 grömm kolvetnasnautt hnetusúkkulaði. 1 pk. Läkerol cactus.
Miðdegisverður: Kjötbollur með smá brúnni sósu og ferskt salat með smá dressing.
Kvöldkaffi: 1 bollasúpa - tær grænmetissúpa.
Kvöldnart: 3 stk After Eight súkkulaði og 2 BabyBel ostar.

Þetta gerir um 1500 kkal. og alveg næstum 60 grömm kolvetni :S Bleblebleble og blablablabla. Verð bara að vera duglegri á morgun. Það er lúmskt mikið af kolvetni í kjötbollunum sko og After Eightið toppaði þetta alveg. Svo var ég glorsvöng þegar ég kom heim og þá fékk ég mér BabyBel ostana. Þeir eru nú kolvetnalausir, en ansi hitaeiningaríkir. En ég labbaði a.m.k. heim úr vinnunni. Nú verð ég að fara í ræktina á morgun og brenna þessum kolvetnum ;)

Kaloríubrennsla

Fann reiknivél á netinu sem ég prófaði að fylla út í, og komst að því ég brenni líklega um 2500-3000 kkal. á dag. Fer auðvitað svolítið eftir hvað ég hreyfi mig mikið. Þá veit ég það. Og svo því léttari sem maður er, því minna brennir maður. Ef ég væri 75 kg þá myndi ég brenna um 200-300 kkal. minna á dag.

Jæja er að fara í vinnu. Vigtin sýndi mér töluna 82,6 kg í morgun, er ánægð með það :D

sunnudagur, september 19, 2004

Sunnudagur og svolítið margar kaloríur :þ

En það má svona af og til. Búin að gúffa í mig low carb nammi og finnst ég bara alveg eiga það skilið, hahaha. Fór líka að æfa í dag og er bara þokkalega sátt við mig ;)

Þetta speltbrauð er svakalega gott og á meðan ég passa að hafa bara þunnar sneiðar og ekki nema svona 1-2 yfir daginn, þá er það sko í besta lagi.

Dagurinn var svona:

Morgunmatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Hádegismatur: 2 speltbrauðsneiðar með L&L og osti.
Millibiti: Low carb nammi (smá bland af súkkulaði, karamellum og lakkrís).
Kvöldmatur: Nautastrimlar með léttsteiktu grænmeti og smá sýrðum rjóma. 1 msk. kókosolía.
Kvöldnart: 30 gr. kolvetnasnautt hnetusúkkulaði (er ekki búin að borða það, en ætla að fá mér það í kvöld).

Samtals er þetta um 1650 kkal. og 30,5 grömm kolvetni.

Hvað ætli annars manneskja eins og ég brenni á dag? Þarf að fara að leita hvort ég finn einhversstaðar svoleiðis upplýsingar á netinu. En ég veit svo sem að eftir sem maður léttist þá brennir maður minna; minni líkami þarf minni orku. Þess vegna eru nú þessi blessuðu síðustu kíló alltaf svo hrikalega erfið ;)

laugardagur, september 18, 2004

Bara leiðist sko...

... og er því að skrifa eitthvað bull. Annars sýnist mér vera smá vakning hér hjá verslununum um svona low carb fæði. Allavegana fann ég low carb karamellur og lakkrís í heilsubúðinni í dag, eitthvað sem ég hef ekki séð þar áður. En ég nenni ekki lengur að reikna með helminginn af sykuralkóhólunum, bara dreg þau frá. Kíki þá frekar á kaloríuinnihaldið. Já og svo var akkurat verið að kynna nýtt brauð í COOP (einni verslunarkeðjunni hér), en það er brauð bakað úr allskonar grófu korni og spelti. Ég keypti svoleiðis og ætla að leyfa mér af og til. Það eru ca 8 grömm kolvetni í venjulegri sneið. Ég reyndar sker þær aðeins þynnri ;)

En já matseðillinn. Ég er nú ekki búin að borða kvöldmat, en ég ætla bara að áætla núna og leiðrétti þetta þá bara á morgun ef eitthvað stemmir ekki.

Morgunmatur: Enginn, svaf.
Hádegismatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Miðdegisverður: Kjúklingasúpa og 1 sneið speltbrauð með L&L og osti.
Nart: 6 low carb karamellur og ca 25 grömm low carb lakkrís.
Kvöldmatur: Steikt nautagúllas m. léttsteiktu grænmeti og smá rjómasoðsósu. 1 msk. kókosolía.
Kvöldsnarl: 30 gr low carb hnetusúkkulaði.

Þetta gerir samtals um 1370 kkal. og 24 grömm kolvetni. Hljómar ágætlega svo ég ætla að reyna að halda mig við þetta plan ;)

Já, annars er ég búin að setja linka á þyngdar- og ummálskúrvurnar mínar. Náttúrulega bara tölur þarna síðan í gær og í dag, en verður gaman að sjá hvernig þetta þróast næstu mánuði. Ef þið haldið músinni yfir línuna þá birtist rétta tölugildið í svona gulum kassa ;) Hofte eru mjaðmir, liv er mitti, lår er læri, legg er kálfi og overarm er upphandleggur ;) Finnið linkana líka undir "Ýmislegt úr mínu átaki" hér til hægri.

Annars bara túrílú, kíki bloggrúntinn seinna í kvöld.

Vissi það!!!

Hah, vissi að vigtin var bara að böggast í mér í gær. Í dag var ég nefninlega 82,9 kg. Finnst það bara miklu trúlegri tala þar sem ég er búin að vera mjög dugleg. Og hananú ;)

föstudagur, september 17, 2004

Og ég fór loks í ræktina :D

Ójá, nú bara varð ég að standa við þetta. Dreif mig því í ræktina þegar ég var búin að keyra krakkana í leikskólann og var auðvitað súperánægð með mig eftirá. Síðan fór ég til óléttu vinkonu minnar, sem var enn ólétt ;) Hún bauð mér í hádegismat, en hún er nú sem betur fer á svipaðri línu og ég. Á boðstólnum var grískt salat með grilluðum kjúklingi... og reyndar brauð. Ég fékk mér meira að segja eina sneið með, en það var bara allt í lagi og skemmdi ekkert daginn hjá mér. Var södd lengi eftir þessa máltíð og fékk mér svo bara einfalda kjúklingasúpu í kvöldmat, bara sem ég keypti svona frosna og hitaði. Og síðan gerði ég svona Cultura/jarðarberja mix og setti í frysti. Var að klára það. Mmmmmm hvað þetta er bara hrikalega gott, algjört sælgæti sko. Svo ætla ég að japla á einum pakka af Läkerol á eftir yfir DVD sem við kallinn ætlum að glápa á. En svona var dagurinn ef ég set þetta upp skipulega:

Morgunmatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Hádegismatur: Grískt salat (með fetaosti og ólívum að sjálfsögðu) með grilluðum kjúklingi. Dressing gerð úr Kesam (sem er nú hreinlega svipað skyri) og niðurröspuðum agúrkum, hvítlauk og kryddi. 1 sneið hvítt brauð með léttu viðbiti.
Kvöldmatur: Kjúklingasúpa. 1 msk. kókosolía.
Kvöldkaffi: Cultura og jarðarber mixuð saman með strásætu, fryst ;)
Kvöldnart: 1 pk. Läkerol cactus.

Þetti gerði ekki nema ca 1200 kkal. og 31 grömm kolvetni. Er mjög ánægð með þennan dag og hádegismaturinn var nú bara æðislegur :D Vigtin var reyndar hundleiðinleg við mig í morgun og neitaði að sýna mér minni tölu en 84,1, en ég ætla bara að gefa skít í það. Ég er búin að standa mig vel og það hlýtur bara að koma í ljós á næstu dögum. Trúi bara ekki öðru. Þessi vigt er bara eitthvað að derra sig núna ;)

Annars fann ég norska megrunarsíðu þar sem er hægt að skrá sig inn og halda dagbók, lesa og kommentera hjá öðrum, fara á spjallborð eða live chat, lesa greinar o.s.frv. Mjög sniðug. Ég skráði mig off kors sko ;) Æfi mig kannski smá í norskunni með þessu, vantar aðallega aðeins upp á þetta skriflega. Svo er þessi síða svo sniðug að maður getur slegið inn þyngd og ummálsmælingar og þá bara færist þetta átómatískt inn í kúrvu sem maður getur svo skoðað. Svo skrá notendur inn ýmsar upplýsingar um sig, m.a. hvaða aðferð þeir eru að nota til að grennast og þannig getur maður t.d. leitað að notendum sem eru á Atkins kúrnum og fengið bara þá upp á síðuna. Eða leitað að þeim sem fara eftir blóðflokkafæðinu, eða þeim sem nota megrunarlyfið Xenical o.fl. Maður getur líka flokkað þá eftir aldri, kyni, hæð, byrjunarþyngd eða byrjunar BMI o.fl. Stórsniðugt alveg ;)

fimmtudagur, september 16, 2004

Gengur vel ;)

Er bara mjög ánægð með mig í dag, þrátt fyrir að ég hafi letingast og ekki farið í ræktina. Búin að borða alveg rétt allan daginn og mátulega mikið. Labbaði reyndar í vinnuna í morgun, svo smá hreyfingu fékk ég nú ;)

Morgunmatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Hádegismatur: Ferskt salat með rækjum og smá dressing.
Miðdegisverður: Nautahakk með léttsteiktu grænmeti. 1 msk. kókosolía.
Kvöldkaffi: Cultura með jarðarberjum og smá strásætu hrært saman í mixer.
Svo var ég reyndar að japla á Läkerol cactus í vinnunni, fer ekki undir neina sérstaka máltíð ;)

Þetta gerir samtals um 1100 kkal. og 28 grömm kolvetni. Bara alveg fullkomið, hehe.

Annars var þetta Cultura/jarðarberjamix alveg snilldargott. Kannski er þetta eitthvað svipað þessum booztum sem þið eruð svo oft að tala um. En ég er viss um að þessi blanda mín er alveg ógó góð svona hálffrosin. Er að hugsa um að prófa það einhverntíman við tækifæri.

Ég ætla í ræktina á morgun. Er alveg búin að plana daginn. Byrja á að keyra krakkana í leikskólann og fer svo í ræktina. Síðan ætla ég í heimsókn til Karinar, kasóléttu vinkonu minnar, (ef hún verður ekki bara búin að eiga) og svo á ég tíma í klippingu og strípur klukkan hálftvö. Haldiði að ég verði gella :Þ ;)

Ég er annars búin að panta frá www.sykurlaust.is, hlakka til að fá vörurnar. Og já, ég var nú bara 83,6 kg á vigtinni í morgun, mér til mikillar gleði :D

miðvikudagur, september 15, 2004

Smá hátíðsdagur í dag ;)

Ég fékk sko útborgað í dag og var að fá launahækkun. Hún var meira að segja töluvert hærri en ég átti von á, húrra húrra :D Svo ég hélt upp á það með því að leyfa mér eitt dökkt hnetusúkkulaði í vinnunni (það er minni sykur í dökku súkkulaði) og svo fórum við fjölskyldan á McDonalds og fengum okkur miðdegisverðinn þar. Ég var nú bara þæg og fékk mér salat með kjúklingi, en reyndar stalst til að smakka smá ís hjá krökkunum. Það var samt ekki nema kannski ein matskeið. Ótrúlegt samt hvað það gerir mikið. En þetta var samt ekkert allt of slæmur dagur. Svona leit hann út:

Morgunmatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Morgunkaffi: 1 soðið egg. 1 dökkt hnetusúkkulaði. 1 pakki Läkerol kaktus (japlaði á þessu svona yfir daginn).
Hádegismatur: Grilluð low carb samloka með skinku, salami og osti.
Miðdegisverður: McDonalds Grilled Chicken Bacon Ranch salat með smá dressingu. Ca 1 msk. ís.
Kvöldsnarl: 150 grömm niðurskorið brokkolí með dressingu gerði úr kotasælu og léttum sýrðum rjóma.

Þetta gerði um 1580 kkal. og 42 grömm kolvetni. Vissulega aðeins fyrir ofan mörkin mín, en samt ekkert brjálað sukk, alls ekki ;)

Ég fór reyndar ekki í leikfimi. Við fórum nefninlega í verslunarleiðangur (alltaf gaman að eyða peningum) þar sem yngri dóttlan þurfti nauðsynlega nýja skó á leikskólann og nýjan regngalla. Svo fann ég rosa fína og góða skó á mig á útsölu, hræódýrir. Þetta eru svona hálfgerðir strigaskór, mjög léttir og fínir. Keypti þá í einhverri útilífsbúð og þeir eru mjög þægilegir. Alveg tilvaldir til að nota þegar maður er að labba heim af kvöldvöktunum ;)

Já, ég á ekki meira brauðmix frá Hagkaup, en ég var búin að e-maila www.sykurlaust.is og díla við að geta verslað frá þeim þó ég búi erlendis. Ætla að kíkja á það í kvöld, ja eða kannski bara á morgun. Er að hugsa um að fara bloggrúntinn og fara svo bara í heitt bað.

En já, hér er hún örlígörlí. Kíkið endilega á hana líka :D

þriðjudagur, september 14, 2004

Brjálað að gera

Ég er sko gjörsamlega búin á því eftir þessa kvöldvakt. Þetta var svona kvöldvakt from hell. Ég er bara kolrugluð eftir að hafa verið á hlaupum og reyna að fá smá yfirsýn yfir hlutina og forgangsraða. Það var sko ekki séns að ná að gera allt sem ég hefði þurft að gera. En ég er komin heim og er afskaplega glöð með það. Verst að ég þarf að mæta aftur í fyrramálið, en það verður nú vonandi ekki svona klikkað að gera þá.

Morgunmatur: Egg og beikon.
Hádegismatur: 2 ristaðar low carb brauðsneiðar með L&L og osti.
Miðdegisverður: Ca 75 gr þorskur með smá sósu og rifnar gulrætur.
Kvöldkaffi: 2 ristaðar low carb brauðsneiðar með L&L og osti.

Miðdegisverðurinn var nú miklu fátæklegri en ég ætlaði mér. Ég ætlaði sko að fá mér low carb brauð með og svona, en hafði bara engan tíma til þess. Heildin gerði ca 1100 kkal. og ekki nema 16 grömm kolvetni. Jæja, það gerir ekkert til svona einu sinni þó kolvetnin séu frekar fá.

Reyni að fara í ræktina á morgun, er mun betri af harðsperrunum ;)

Smá mömmumont ;)Sætustu börn í heimi ;) Posted by Hello

Frekar svekkjandi...

... þegar maður er að gera allt rétt og þyngist bara á vigtinni :S Ég er bara ekki að kaupa það að 1450 kaloríur fái mig til að fitna, ónei. Hlýtur að vera bara eitthvað tilfallandi, aukabjúgur eða eitthvað slíkt.

Annars fer ég á kvöldvakt á eftir svo ég skrifa ekkert meira fyrr en seint í kvöld eða bara á morgun ;)

mánudagur, september 13, 2004

Kókosolía

Smá um hana þar sem sumar eru að velta fyrir sér hvað eigi að vera svona gott við hana.

Kókosolía, eða kókosfita, er fljótandi við hitastig 24 gráður og yfir, annars er hún í föstu formi. Hún er því ýmist kölluð olía eða fita. Ég kalla hana bara olíu þar sem ég geymi hana þar sem hún helst fljótandi. Mér finnst betra að taka hana í þannig formi. Annars hefur olían/fitan mjög gott geymsluþol og þolir einnig vel hita, þannig að hún getur hentað mjög vel til steikingar og einnig er lítið mál að hita hana bara krukkuna undir heitu vatni ef maður vill fá hana úr föstu formi yfir í fljótandi.

Kókosolían var einu sinni talin ein óhollasta fitan á jarðríki, þar sem hún inniheldur yfir 90% mettaða fitu. En nú er komið í ljós að þessi mettaða fita sem kókosolían inniheldur er alls ekki svona skaðleg fyrir hjarta- og blóðrásarkerfið Munurinn er sá að mettuðu fiturnar samanstanda að mestu leytu af millilöngum fitusýrum, sem líkaminn á auðvelt með að brjóta niður. Hún er laus við trans-fitusýrurnar sem eru þessar hættulegu. Einnig inniheldur kókosolía sérstaka fitu sem kallast monolaurin, en verið er að rannsaka monolaurin í lyfjaheiminum í sambandi við góð áhrif hennar á sýkingar eins og kynfæraherpes, lifrarbólgu og eyðni. Monolaurin er einnig til staðar í móðurmjólkinni. Einnig er verið að rannsaka kosti kókosolíu sem meðferð við vanstarfsemi skjaldkirtils.

Í dag er kókosolían af mörgum talin hollasta fita heims.

Kostir kókosolíu eiga að vera m.a. þessir:

Styrkir ónæmiskerfið og veitir þannig vörn gegn ýmsum sýkingum.
Hefur góð áhrif á húð og hár, t.d. vinnur gegn flösu og exemi, jafnvel psoriasis.
Virkar örvandi á brennsluna.
Eykur upptöku og nýtingu af Omega 3 og 6 fitusýrum.
Vinnur gegn vanvirkni skjaldkirtils.
Dregur úr bólguviðbrögðum vegna ofnæmis.
Veitir vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum.


Ég trúi svo sem ekkert að kókosolían sé neitt undralyf sem lækni alla kvilla og láti þig grennast bara sjálfkrafa, en kannski hjálpar hún aðeins til við allt þetta ;)

Fínn dagur

Náði reyndar ekki að steikja mér egg og beikon í morgun, var svo sein á fætur að ég hafði ekki tíma til þess áður en ég fór í vinnuna. En þá kom nú low carb brauðið mitt að góðum notum ;) Ég er enn með brjálaðar harðsperrur í brjóstvöðvunum, bara hrikalega vont :( Fór ekki í leikfimi í dag, bæði út af harðsperrunum og líka var ég bara ósköp þreytt eftir daginn. En ég er búin að standa mig mjög vel í mataræðinu og reyndar hjólaði ég nú í og úr vinnu.

Morgunmatur: 2 low carb brauðsneiðar með L&L og osti. 1 msk. kókosolía.
Hádegismatur: Grilluð low carb samloka með skinku, salami og osti.
Kvöldmatur: Ofnsteiktur sítrónukjúklingur með léttsteiktu grænmeti og rjómasoðsósu. 1 msk. kókosolía.
Nart: 1 pk. Läkerol kaktus.
Kvöldsnarl: Ferskt, niðurskorið grænmeti með ídýfu gerða úr Cultura-mjólk.

Þetta gerði um 1450 kkal. og 32,5 grömm kolvetni. Kaloríurnar kannski í efri kantinum, en mér finnst ég samt búin að borða afskaplega hollt í dag ;) Það er nú bara snilld að fá sér svona niðurskorið ferskt grænmeti á kvöldin með smá léttri ídýfu, namminamminamm. Ég nota bara Cultura (AB-mjólk) og krydda neð smá allround- og hvítlaukskryddi :D Verst bara hvað öll súrmjólk hér er miklu þynnri en súrmjólkin á Íslandi, en í staðin þá kemur það sjálfkrafa að maður fær sér ekki eins mikið af ídýfunni; þynnra lag sem festist á ;)

sunnudagur, september 12, 2004

Og meira ;)

Matseðillinn í dag var ansi furðulegur. Ég svaf rosalega illa í nótt þar sem báðir litlu ungarnir komu upp í og hröktu mig fram á rúmkant. Það endaði með að ég flúði fram og reyndi að leggja mig í sófanum. En sú sæla var skammvinn þar sem Hjalti vaknaði eldsnemma og kom fram ;) Svo var ég bara með dúndrandi hausverk sem ég taldi stafa af þreytunni. Jæja, en ég gat svo lagt mig frá ca 10:30-14. Vaknaði þá reyndar enn með þennan hausverk, fékk mér bara verkjatöflur og Tab og smá kolvetnasnautt súkkulaði svona til að narta í. Svo var ég eiginlega ekkert svöng strax, skrapp bara í bað til að reyna að láta mér líða betur, sem tókst, skrapp svo í sjoppuna og keypti mér meira Tab og einn Läkerol pakka sem ég spændi upp ;) Svo eldaði ég mér kvöldmat og var núna áðan að fá mér smá kvöldsnarl. Svona leit þetta því út:

Miðdegisnart: Kolvetnasnautt súkkulaði og 1 pk. Läkerol salvi (er sko sykurlaus).
Kvöldmatur: Pönnuréttur með steiktu grænmeti og pylsubitum. 1 msk. kókosolía.
Kvöldsnarl: Grilluð low carb samloka með skinku, salami og osti. 1 msk. kókosolía.

Í heildina gerði þetta um 1200 kkal. og 31 grömm kolvetni.

Já og svo er ég búin að finna enn eina sem er að blogga um átakið sitt; Dísublogg.

Kræst, ég er að drepast úr harðsperrum í brjóstvöðvunum, heh!

Hitt og þetta

Fann enn einn átaksbloggarann, þessi kallar sig Litla_bolla. Hlakka til að fylgjast með hjá henni ;)

En svo er hún Hildur hætt með átaksbloggið sitt. Mér finnst það alveg ferlega leiðinlegt, enda hefur hún verið mér svo mikið pepp og frábært að fylgjast með henni. En hún hefur eflaust sínar ástæður fyrir því. Ég vona bara að hún skipti um skoðun og byrji aftur að blogga, sakna hennar rosalega í hóp okkar. En sem betur fer fylgist hún nú enn með okkur.

Vigtin var ekkert vinkona mín í morgun, var alveg heil 84,2 kg, en ég get bara sjálfri mér kennt þar sem ég hef verið svo ódugleg þessa vikuna, þ.e. fram að fimmtudegi. En það þýðir ekkert að væla um það, bara halda ótrauð áfram. Annars er ég voða lufsuleg í dag, með dúndrandi hausverk og var að taka verkjatöflur. Litlu krakkarnir eru lasnir og kallinn er líka hálflasinn. Bara Elísa sem er alveg frísk. Jæja, ég er að hugsa um að henda mér bara í bað og gá hvort ég hressist eitthvað.

laugardagur, september 11, 2004

Fleiri átaksbloggarar

Fann eina í viðbót. Hér er hún: Eliza

Matseðill dagsins

Hádegismatur: Egg og beikon. 1 msk. kókosolía.
Orkubiti: Kolvetnasnautt súkkulaði.
Kvöldmatur: Pönnuréttur með steiktu grænmeti og pylsubitum. 1 msk. kókosolía.
Kvöldnart: Kolvetnasnautt súkkulaði.

Samtals um 1260 kkal. og 22 grömm kolvetni.

Já, eins og þið sjáið þá er ég farin að taka kókosolíu aftur. Var svo ódugleg við það síðast og ætla núna að reyna að vera dugleg og taka þetta tvisvar á dag. Þetta á að vera svo voðalega hollt ;)

Annars er ég að fara að horfa á Shawshank redemption með kallinum. Hann hefur aldrei séð hana og það liggur nú við að ég öfundi hann bara af því að vera að sjá hana í fyrsta skiptið ;)

Oh what a wonderful day

Æ ég er bara svo ánægð með daginn eitthvað. Vaknaði reyndar seint, en það var samt alveg æðislegt að fá að sofa út. Fékk mér egg og beikon sem fyrstu máltíð dagsins og hressti mig aðeins við. Var reyndar smá stund að jafna mig og komast úr svefnrofunum. Svo var það þetta með leikfimina sko, var alveg á miljón að reyna að finna afsakanir til að fara ekki.

Hjalti Sævar orðinn veikur, best að vera heima... nei Bjöggi getur nú víst alveg hugsað um hann í smá stund á meðan ég fer í leikfimi. Oh ég finn ekki leikfimiskóna mína, ég verð bara að sleppa leikfiminni... nei Lilja, leitaðu nú aðeins betur, þú sást þá einhversstaðar um daginn. Sko. þeir voru bara inni í eldhúsi. Æ, ég veit ekkert hvar leikfimitoppurinn minn er, ég bara verð að vera heima... nei láttu ekki svona Lilja, þú getur nú alveg notað venjulegan brjóstahaldara einu sinni, þú ert ekkert að fara að hoppa og skoppa núna. En ég var búin að lofa Örnu að koma með og barnapössunin lokar klukkan 16, enginn tími eftir... þetta er nú bara bull Lilja, sumartíminn er búinn og þá er barnagæslan opin alveg til 17:30, drífðu þig nú bara.

Svo ég bara dreif mig og tók Örnu með og skildi Hjalta litla lasarus eftir hjá pabba sínum. Mikið svakalega er ég líka ánægð núna að hafa farið. Maður er alltaf svo ánægður með sig eftir leikfimipúl og þar að auki er alltaf erfiðast að drífa sig af stað aftur eftir langt hlé. Núna er ég búin að rjúfa þá hindrun. Svo var ég nú bara rosalega ánægð með hvað ég virðist samt sem áður vera á svipuðum stað í þolinu og áður en ég fór í frí. Reyndar tók ég bara 25 mínútur á Orbitrekkinu í þetta skiptið, í stað 35 eins og ég tek venjulega. En það gekk bara rosalega vel og ég hefði örugglega getað verið aðeins lengur. Ég gat líka alveg verið með sömu þyngdir í tækjunum og áður. Það eina sem ég fann smá fyrir var að ég var örlítið slakari í mgaæfingunum, gerði bara 2x15 í stað 2x20. En reyndar var ég með lappirnar hærra uppi en áður svo þetta voru erfiðari magaæfingar.

Ég fékk mér smá kolvetnasnautt súkkulaði núna eftir leikfimina og svo er ég nú að hugsa um að elda bara pönnurétt með steiktu grænmeti og pylsubitum í kvöldmat á eftir. Set svo inn kaloríur og kolvetnafjölda seinna í kvöld... jamm ég lofa í þetta sinn þó ég hafi ekki nennt því í gær ;)

föstudagur, september 10, 2004

Helgin framundan ;)

Jæja, þá er maður kominn af stað aftur. Ég man reyndar ekkert nákvæmlega hvað ég borðaði í gær, enda var ég á kvöldvakt og á hlaupum. En ég tók nú með mér kolvetnasnautt brauð í nesti og hafði bara þokkalegan dag. Át kannski aðeins of mikið samt :Þ

Í dag er ég búin að borða egg og beikon í morgunmat, low carb brauð í morgunkaffi og ferskt salat með rækjum í hádegismat. Svo var okkur reyndar boðið í kaffi áðan og ég freistaðist í nokkrar saltstangir. Held að það hafi samt ekki skemmt mjög mikið. Ég er nú bara frekar södd núna svo ég ætla bara að fá mér kvöldmat aðeins seinna. Ég held að ég eigi enn afgang af kolvetnissnauðu pasta með kjúklingi sem ég eldaði um daginn, athuga það á eftir. Annars skal ég að reyna setja inn kolvetnin og hitaeiningarnar á eftir eins og venjulega.

Leikfimin bíður enn :S Vinkona mín hafði ekkert samband í gær, svo ég býst við að hún hafi þurft að sleppa því að fara. Ég var að fara á kvöldvakt svo ég gat ekkert farið eftir hádegi. Ég hefði svo sem getað farið í dag, en ég er bara hreint og beint löt og þreytt eftir vinnudaginn. Ætla bara að drífa mig á morgun þegar ég er hress og útsofin.

miðvikudagur, september 08, 2004

Ný byrjun!

Ég er búin að ákveða að á morgun verður ný byrjun. Ég gat allavegana farið og verslað almennilega í dag, mikil hamingja, og á reyndar eftir að versla aðeins meira til að allt sé fullkomið. Ætla svo að baka kolvetnissnautt brauð á eftir og brugga Olludjúsinn góða. Ég ætla samt ekki að byrja á fullu í átakinu í dag, þar sem er að fara á deildarfund í vinnunni á eftir og þar verður boðið upp á pizzu. Svo finnst mér líka bara ágætt að byrja alveg frá byrjun á deginum og hafa þá bara allt tilbúið fyrir morgundaginn. Ég er ekki enn búin að koma mér í leikfimi aftur, en er búin að gera díl við vinkonu mína um að fara með henni á morgun, svo ég verð nú að standa við það ;) Jámm, mér líst vel á þetta og er sko gasalega ánægð að vera komin með smá aur aftur :D

mánudagur, september 06, 2004

Ekki gengur það vel núna

Skil bara ekkert í mér. Var búin að vera voða dugleg í dag en sprakk svo gjörsamlega í kvöld. Fékk mér brauð og kláraði svo kexpakkann. Ég get svo svarið það. Nú verð ég að fara að taka mér taki, þetta gengur nú ekkert svona. Þarf að baka annað svona kolvetnasnautt brauð, á eitt mix í viðbót, og bara hemja mig aðeins. Það þýðir ekkert að hafa marga daga í afmæli sko :Þ

sunnudagur, september 05, 2004

Er að baka köku

Og ég ætla að éta hana á eftir. Maður á nú bara afmæli einu sinni á ári ;)

Jahá ;)

Þrátt fyrir svindl undanfarið var ég samt ekki nema 83,5 kg á vigtinni í morgun. Náði vel markmiðinu og meira til, en ég stefndi á að vera 84,3 í dag.

Annars er ég bara búin að borða eina máltíð í dag, enda svaf ég frameftir þar sem ég var á næturvakt s.l. nótt. Borðaði svona kolvetnissnauðan pastarétt, er samt ekki alveg með á hreinu hversu mörg kolvetni voru í því. Svo á ég eflaust eftir að fá mér eitthvað meira að borða í kvöld.

Ég á afmæli í dag :D

Ég á afmæli í dag
Ég á afmæli í dag
Ég á afmæli í daaaaaaag
Ég á afmæli í dag :D

laugardagur, september 04, 2004

Ég er hér...

... bara ekkert í svaka miklu átaki akkurat þessa dagana. Er á næturvöktum núna og er enn sem áður of blönk til að hafa getað keypt mér almennilegt fóður sem hentar mér. Ég hugsa að það verði ekkert svona almennilegt átak hér fyrr en 15. sept, en þá fæ ég útborgað og get farið og fyllt ísskápinn af hollum og kolvetnasnauðum mat. Svo var okkur nú boðið í kaffi og kökur í dag og á morgun á ég afmæli. Þannig að þetta er allt hálfvegis úr skorðum núna. En ég reyni að sleppa mér ekki alveg. Reyndar ætla ég að reyna að drífa mig í leikfimi aftur á mánudaginn ;)

En jájá, svona er þetta í augnablikinu, en á nú allt eftir að lagast.

fimmtudagur, september 02, 2004

Smá klúður, æææ

Dagurinn í gær varð nú að smá klúðri. Byrjaði á að gleyma að taka með mér nesti svo ég keypti mér gróft rúnnstykki með eggjum, tómötum, salati og og spægipylsu, sem varð svona bæði morgunmatur og hádegismatur. Svo sem ásættanlegt þrátt fyrir allt, en auðvitað ansi kolvetnaríkt. Svo borðaði ég fínan miðdegisverð, svínakjöt með grænmeti og smá sósu. En svo var ég kölluð út á næturvakt og freistaðist þar til að fá mér kex, át örugglega svona 5 stykki af súkkulaðibitakexi. Svo ekki var ég að grennast í gær og í nótt, heh.

En dagurinn í dag hófst nú matarlega séð á miðdegisverði, þar sem ég vaknaði um kl. 15, sótti svo krakkana á leikskólann og hafði svo matartíma. Var bara með afganga af svínakjöti frá í gær. Veit ekki alveg hvernig restin af deginum verður, fæ mér kannski low carb brauð seinna ;)