Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Smá bakslag.

Ekkert voða alvarlegt samt, en ég datt aðeins úr gírnum. Það er nú aðallega út af þessum íbúðamálum og svo að ég er búin að vera að vinna helling. Bara mikið sem ég hef þurft að stússast og lítill tími fyrir ræktina. Mataræðið hefur reyndar verið í fínu lagi, nema ég fór á skrall á laugardaginn og hugsaði ekki alveg nógu vel um mataræðið næstu daga. Samt ekkert nammi, en líklega borðað aðeins of mikið. Reyndar er ég búin að ákveða að hafa smá nammikvöld í kvöld í tilefni Rockstar Supernova, en síðan ætla ég bara í rétta farið aftur á morgun. Íbúðarmálin skýrast nú vonandi á morgun eða hinn, er orðin dauðleið á þessu stússi :( Vona bara að allt leysist á besta veg og að við fáum þessa íbúð.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Hæ hó!

Hér gengur allt vel. Er bara nokkuð dugleg í ræktinni og mjög dugleg í mataræðinu. Það hamlar aðeins ræktinni hjá mér hvað ég er að vinna mikið, en ég er líka bara að koma mér upp smá rútínu. Er að fara svona fjórum sinnum í viku núna, en ætla að auka það. Steig á vigtina á þriðjudaginn og var bara alveg sátt þó svo að það færu engin 4 kg þessa vikuna ;) Nei, það fóru "bara" 0,5 kg, en mér finnst það í góðu lagi. Ætla bara að halda áfram á sömu braut og þetta kemur allt smám saman ;)

Er að vinna alla helgina, en samt ekki mjög leiðinlegar vaktir. Ætla í ræktina fyrripartinn á morgun þar sem ég er á kvöldvakt. Verð aðeins að sjá til með laugardaginn, því ég er að vinna til 16 og svo fáum við vinafólk í heimsókn í grill um kvöldið. En þá fer ég bara á sunnudeginum ;)

Ætla aðeins að kíkja smá bloggrúnt.

Dí, hvað það er gott að vera komin í þetta hugarfar aftur ;)

mánudagur, ágúst 21, 2006

Bráðum byrjar skólinn

Já, skólinn hjá stelpunum er að byrja... tókuð þið eftir að ég sagði stelpunum... í fleirtölu? Hún Arna mín er nefninlega að byrja í skóla ;D Hún hlakkar alveg rosa mikið til, er sko orðin svaka stór. Þetta er spennandi ;) Það er skólasetning á morgun, en fyrstu bekkingar eiga að mæta í viðtal hjá sínum umsjónarkennara með foreldrum annað hvort á morgun eða á miðvikudaginn.

Annars þá gengur mér bara mjög vel í mataræðinu. Það er allt búið að vera að drukkna í súkkulaðikökum, pizzum og nammi í vinnunni, en ég stend þetta allt af mér og finnst það ekki einu sinni erfitt. Það er svo rosalega gott þegar maður er í þessum gír. Hef hins vegar ekki komist í ræktina um helgina sökum mikillar vinnu, en ég fer á eftir. Hef samt grun um að þyngdartapið verði lítið þessa vikuna, fór aðeins upp á við eftir síðustu mælingu, en síðan niður aftur. En ég er ekkert að stressa mig á þessu, þar sem þyngdartapið síðustu viku var svo mikið. Mér gengur bara vel og er mjög ánægð með mig.

Fresinius, ég ætla sko ekki að fara úr Kópavoginum ;)

Takk fyrir öll góðu kommentin stelpur :D

laugardagur, ágúst 19, 2006

Hellú

Enn gengur allt bara vel. Vigtin er hætt að húrra svona niður á við, enda var alveg við því að búast. En ég stend mig vel í mataræðinu og ræktinni. Búin að fara í ræktina mánudag, þriðjudag og fimmtudag. Fór ekki á miðvikudag og í gær, en ætla að drífa mig á eftir. Annars er ég bara að vinna eins og alltaf, tek smá aukavakt í kvöld, 4 tíma, og svo 12 tíma aukavakt á morgun. Jamm, jamm.

Enn ekkert komið á hreint með íbúðamál, vonandi skýrist það eftir helgi.

Hafið það gott skvísur ;)

Lilja

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Þyngdartap vikunnar

Ætlaði reyndar að skella inn tölu í gær, en höfum það bara í dag. Á átta dögum eru farin heil 4,7 kg. Enda mest af þessu einhver sukkkíló. Á ekki von á að þetta gangi eins hratt næstu viku, en ég er ánægð með þetta ;)

Fór í ræktina í gær, en hvíldi hana í dag. Fer svo á morgun ;)

mánudagur, ágúst 14, 2006

Ánægð með mig

Jibbí, skibbí ;D Vinkona mín er loksins flutt í bæinn og við drifum okkur í ræktina í dag. Er svo ánægð með þetta. Er líka dugleg í mataræðinu ;D Já, ég er bara ánægð með mig.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Er á lífi og ekkert sukk ;)

Bara mikil vinna þessa helgi. Er á næturvöktum og svo að taka aukavaktir líka. En ég er búin að standa mig alveg prýðilega í mataræðinu. Ræktin þarf bara að bíða, meika hana ekki þegar ég er að vinna svona mikið, allavegana ekki núna. En ég fer alveg pottþétt á morgun.

Vigtin er töluvert ljúfari við mig núna en þegar ég var nýkomin heim úr fríinu, en sukkkílóin fara náttúrulega alltaf frekar fljótt. Síðan þegar þau eru farin þá tekur alvaran við og þá gengur þetta ekki alveg jafn hratt. En þetta gengur og skal gera það áfram ;)

12,5 tíma vakt framundan, 19:30-08. Hlakka til þegar hún er búin. Úff já, svo þurfum við að fara að tékka á þessu greiðslumati okkar, er svolítið stressuð yfir því. Krossið putta fyrir okkur :0 :)

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Stutt blogg

Var á kvöldvakt í gær, dagurinn gekk mjög vel. Borðaði hollt og fór í ræktina :D Fer á kvöldvakt líka á eftir. Ætla ekki í ræktina í dag, er bara þreytt og svo þarf ég að stússast aðeins á eftir. En stefni á að fara á morgun ;)

Ákvað að hafa þriðjudaginn s.l. sem svona núlldag, þ.e. daginn sem ég byrjaði þetta átak. Ætla svo að skella inn vikulega hvað ég er búin að missa mörg kíló frá þessum degi (eða bæta á mig ef svo er að skipta, vonum bara að það fari ekki þannig :S ).

Sjáumst ;)

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Betri dagur í dag ;)

Takk fyrir peppið elsku dúllurnar mínar, leið ofsalega mikið betur við að lesa kommentin frá ykkur.

Jæja, dagurinn í dag. Ég fór reyndar ekki í ræktina, skamm á mig fyrir það. Mér til afsökunar þá þurfti ég að stússat heilmikið í dag, var t.d. að skrá Örnu í dægradvöl í skólanum, keyra tengdaömmu í banka og búð, versla inn fyrir þetta galtóma heimili (ekkert til eftir sumarfríið), heimsótti vin minn sem býr í DK en er hér í fríi núna og fer aftur út í lok vikunnar, og fór svo og skoðaði íbúð áðan.

Okkur leist bara ansi vel á þessa íbúð. Staðsetningin er mjög fín, bæði upp á skóla og leikskóla barnanna og með tilliti til umferðar. Þetta er efri sérhæð í tvíbýli, sér inngangur, huggulegur garður með sólpalli og húsið er innarlega í botnlanga, þannig að það er ekki mikil umferð þarna. Stór og rúmgóð herbergi, stofan að vísu ekki mjög stór, en samt alveg nógu stór, nýleg og nytsamleg eldhúsinnrétting, ágætis baðherbergi með nokkuð nýlegum innréttingum. Þvottahús og geymsla í kjallaranum og svo fylgir bílskúr sem búið er að innrétta sem einstaklingsíbúð, þannig að þar koma inn fínar leigutekjur sem myndu alldeilis létta greiðslubyrðina.

Eini gallinn er eiginlega að það eru ekki nema þrjú svefnherbergi, en við hefðum helst þurft fjögur. Arna og Hjalti geta svo sem alveg verið saman í herbergi eitthvað áfram, og það er líka alveg möguleiki á að hólfa af eitt svefnherbergið einhvernvegin til að þau fengu meira svona einkarými. Svo þegar Elísa er orðin nógu stór gæti hún alveg farið yfir í bílskúrsíbúðina.

Allavegana finnst okkur alveg þess virði að skoða þetta vel.

En já, aftur að átakinu. Mér er búið að ganga mjög vel með mataræðið í dag og líður miklu betur ;) Ætla svo bara að drífa mig í ræktina strax í fyrramálið.

Sálartetrið svolítið slæmt

Já, það verður bara að viðurkennast, andlega hliðin er í svolítilli lægð núna. Einhvernvegin lagði maður þetta svolítið til hliðar í sumarfríinu, en núna þegar maður er kominn heim aftur og er bara að fara í rútínuna aftur, þá dembdist þetta yfir mig. Mér finnst ég bara frekar ógeðslegt núna. Finn að það er að myndast undirhaka á mér, finnst magaspikið vella út um allt, með fellingar á bakinu og vottar varla fyrir vöðvum á fótleggjum og handleggjum. Það er eiginlega enn ömurlegra að hafa verið komin í frábært form og klúðra þessu síðan svona svakalega aftur. Mér líður bara eins og ég sé virkilega FEIT, með HUGE F-i núna.

Ekki nóg með það, heldur þá finnst mér ég vera sú eina í nánustu fjölskyldunni sem er svona feit, bara gjörsamlega á skjön við hinar stelpurnar. Systir mín er grönn og æðisleg, kærasta bróður míns í flottu formi. Báðar systur kærastans míns eru tágrannar og algjörir kroppar, kona bróður hans sömuleiðis, þrátt fyrir að vera kasólétt... ja, hún var reyndar að eiga fyrir nokkrum klukkutímum bara, og ég er viss um að eftir nokkra daga verður ekki á henni séð að hún sé nýbúin að eignast barn. Svo kem ég, blobb blobb!

Svo veit ég alveg að fólk talar, svoleiðis er það bara. Ekki að það sé að meina neitt illt með því, en ég get alveg gert mér í hugarlund samræðurnar í vinnunni, í vinahópnum, í fjölskyldunni... svona þegar ég er ekki nálægt.

- Rosalega er mikil synd að Lilja sé búin að fitna svona aftur, eins og hún var nú búin að missa mörg kíló.
- Já, maður tekur alveg eftir þessu. Hún er líka ekkert að passa sig núna, sé hana oft fá sér sælgæti og eitthvað svona óhollt.
- Já, þetta er leiðinlegt.

O.s.frv.

Ég ætla nú ekki að ganga svo langt og segja að ég sé orðin þunglynd út af þessu, alls ekki. En það er svona svolítil depurð yfir mér. Ég er bara mjög óánægð með mig, líður ekki vel eins og ég er og langar minna til að hitta fólk út af þessu. Sérstaklega fólk sem ég hef ekki hitt í einhvern tíma og ég veit að sér greinilega mun á mér.

Svo bara skil ég ekki hvernig ég leyfði þessu að gerast. Ég VEIT alveg hvað gerist ef ég held mig ekki við mitt holla mataræði og hreyfinguna, þ.e. ég fitna eins og skot aftur. Ég veit svo sem hluta af ástæðunni, eins fáránlegt og það nú er. En ég hef verið svolítið feimin við að ræða þetta í nýja sambandinu mínu, fundist eins og ég sé eitthvað fáránleg ef ég er að vigta og skrifa niður hvað ég borða o.s.frv. Bara svolítið óörugg. Skil samt ekki alveg hvers vegna og ég er pirruð á mér fyrir að vera að spá svona í hvað öðrum finnst um þessa aðferð mína, því hún kemur engum við. ÉG veit hvað virkar fyrir mig og þá á enginn annar að hafa áhrif þar á... en svoleiðis hefur það nú samt aðeins verið.

Annað sem spilar inn í eru náttúrulega bara allar þessar breytingar sem hafa orðið á mínu lífi s.l. ár, en eftir situr að ég hef líka bara leyft þessu að gerast. Ég hef ekki passað að setja átakið mitt í forgang og það er það sem ég þarf að gera aftur.

Jæja, það var allavegana gott að fá að pústa smá, þó svo að það sé nú bara í tölvunni. Klukkan er að verða þrjú um nótt og ég gat bara ekki sofið. Vonandi verður morgundagurinn betri, ætla sko að drífa mig í ræktina og koma skipulagi á mataræðið. Góða nótt :*

mánudagur, ágúst 07, 2006

Úff og púff og allt það

Jæja kæru vinkonur og aðrir.

Nú er ég komin heim úr þriggja vikna sumarfríi austur á Egilsstöðum í sól og blíðu (svona oftast allavegana) og viðbjóðslega miklu áti á gómsætum mat og óhollu snakki :S Er bara gjörsamlega hnöttótt eftir þetta. Hafði það að vísu alveg rosalega gott og þetta var mjög skemmtilegt sumarfrí, en já... hafði það aðeins of gott. Ef ég á ekki að missa mig gjörsamlega þá verð ég að gera eitthvað í þessu... er að fá ógeð á mér aftur og ég hata þessa tilfinningu. Þannig að það er mjög skynsamlegt að taka á þessu strax og koma sér í gott form aftur.

Vinkona mín ætlar að koma með mér í átak og við byrjum á því saman um miðjan ágúst. Ætlum að vera duglegar í ræktinni, í mataræðinu og fara út að ganga. Hugmyndin er að labba á Esjuna reglulega og eitthvað fleira í þeim dúr. Kærastinn er mikið til í að vera með í því líka, og það er frábært. Ég ætla reyndar bara að byrja í átakinu strax á morgun, er svona að undirbúa mig andlega og skipuleggja aðeins. Ætla virkilega að stefna á að gera þetta almennilega núna og vera dugleg að blogga.

Skelli inn færslu á morgun, hlakka heilmikið til að komast af stað aftur.