Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

föstudagur, apríl 30, 2004

Ennþá 89,4 kg

Jájá, maður getur nú ekki búist við að kílóin hrynji af á hverjum degi. Annars er ég svaka ánægð með mig, var næstum búin að freistast til að fá mér ís áðan. Það er nefninlega svo gott veður og við keyptum ís af Ísbílnum sem flakkar hér um af og til, og allir fengu sér auðvitað ís. Ég var komin með einn í hendurnar þegar ég henti honum aftur inn í frysti, var hugsað til Stórukonunnar og Ollu sem fylgjast vel með mér, hehe, og ákvað að sleppa þessum ís. Takk stelpur, allt ykkur að þakka. Svo ég fékk mér bara litlar kjötbollur til að narta í í staðin.

Annars var ég að hugsa hvort ég eigi ekki að reyna að setja markmiðið mitt á 80 kg í byrjun ágúst. Þá er ætlunin að skreppa til Íslands í sumrfrí og það væri nú rosa gaman að vera komin niður í 80 kg þá. Kannski er þetta svolítið stíft, tæp 10 kg á ca13 vikum, en ég set allavegana stefnuna á þetta og svo sjáum við hvað setur. Þá er eiginlega langtímamarkmiðinu mínu náð, þ.e. sem ég setti mér í upphafi, en nú er ég farin að gæla við að komast í 75 ;) En þá er líka eins gott að standa sig svo að þetta náist. Ég ætla í ræktina á eftir áður en ég fer á næturvaktina, ætla bara að passa mig að hafa eitthvað með mér með smá kolvetnum í sem ég get borðað strax eftir púlið ;)

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Engin leikfimi í dag

Og reyndar ekki í gær heldur. Ég ætlaði að fara í dag, en var að vinna til 15 og svo var ég plötuð til að koma á einhvern hjúkkufyrirlestur sem byrjaði klukkan 18. Svo ég sleppti því að fara í leikfimina svo ég gæti nú aðeins hitt börnin mín.

Mataræðið var ágætt í dag, var skíthrædd um að það yrði boðið upp á eitthvað kolvetnisríkt á þessum fyrirlestri, fengum nefninlega smá dinner þar, en það var þessi fíni "koldtallerken" eða svona kaldur diskur, með laxi, buffi, roastbeaf, sjávarréttum og salati. Reyndar brauð með og ég freistaðist til að fá mér eina sneið af grófu brauði. Svo var ég orðin svo svöng áðan að ég fékk mér gerviskyr með gervisætu og smá rjóma út á. Ok, það er smá kolvetni í því. En ég held að þetta skemmi ekki of mikið, þetta var ekkert sukk. Svo ætla ég bara að drífa mig í leikfimi á morgun.

Já og vigtin var svipuð í morgun og hún var í gær ;)

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Og það er gaman ;)

Var 89,4 kg samkvæmt vigtinni þegar ég vaknaði áðan. Er sko verulega ánægð með þetta. Annars fór ég að æfa í gær áður en ég fór á næturvaktina og það gerðist nákvæmlega það sama og í fyrradag eftir æfinguna. Mér varð alveg hrikalega óglatt svona klukkutíma eftir að ég var búin að æfa og hreinlega skalf bara og titraði. Ég hef grun um að þetta tengist blóðsykrinum og að hann hafi bara droppað aðeins of mikið. Ég lagaðist stuttu eftir að ég fékk mér smá appelsínusafa og osta. Næst þegar ég fer að æfa ætla að að passa að borða eitthvað strax eftir æfinguna. Annars tékkaði ég á blóðsykringum í vinnunni þegar þetta gerðist í gær, og hann var ekkert hættulega lágur, eða 4,2. En það er samt frekar lágt miðað við að þetta sé að kvöldi til. 4,2 er svona mjög eðlilegt gildi eftir næturföstu. En svo eftir að ég borðaði og fór að líða betur þá var blóðsykurinn kominn í 6,0, sem er miklu meira normal þegar maður er ekki búinn að fasta í 12 tíma.

En já með blóðprufurnar, þær komu bara glimrandi út. Heildarkólesterólið var 4,5 mmol/ml, en viðmiðunarmörkin eru 3,7-8,2 mmol/ml. Að hafa þetta undir 5 er mjög flott og setur mann ekki í neina aukna áhættu fyrir hjarta- og æðasjúkdómum. Góða kólesterólið (HDL) var 1,6 mmol/ml, viðmiðunarmörkin eru 0,9-2,2 mmol/ml, en það er mjög gott ef það er yfir 1,5, því þá gefur það manni aukna vernd gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Þríglýseríðar voru vel innan eðlilegra marka, og eiginlega í neðri kantinum, 0,63 mmol/ml, en viðmiðunarmörkin eru 0,5-1,4 mmol/ml. Þessi viðmiðunarmörk öll eru fyrir minn aldurshóp. Þau geta verið aðeins öðruvísi fyrir yngra og eldra fólk. En allavegana þarf ég ekki að kvarta ;) Natríum, kalíum, kreatínin, hemoglobin og blóðsykur voru líka í fínu lagi ;)

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Daddaraaaa!

Vigtin sýndi 90,0 kg í morgun, ekki slæmt það ;) Annars fór ég í blóðprufurnar áðan (já, mundi eftir að vera fastandi frá miðnætti) og fæ líklega svörin seinnipartinn í dag. Annars er ég að fara á næturvakt í nótt. Er mikið að spá hvort ég eigi ekki að reyna að drífa mig í leikfimi áður, sjáum til hvað ég næ að leggja mig fyrir næturvaktina. En ég er allavegana voða ánægð með vigtina í dag, veit samt að hún getur rokkað svolítið.

mánudagur, apríl 26, 2004

Púl og puð... eða bara stuð ;)

Ég er svo ánægð með mig. Ég komst loks yfir þröskuldinn og dreif mig í ræktina. Hef ekki farið síðan fyrir jól og er búin að vera "alveg á leiðinni" síðan. En sem sagt fór loks í kvöld. Fór á svona Orbitrek græju og púlaði á henni í 35 mínútur, og svo fór ég í ca hálftíma í tækin. Nú líður mér ekkert smá vel, svolítið skjálfandi, hahaha, en líður svaka vel, nema að ég er svo svöng að mér er óglatt. Best að fá sér smá næringu ;)

Ooooh!!!

Vigtin bara haggast ekki niður á við núna, arg! Þetta er svo leiðinlegt. Ætla að reyna að borða ekkert á milli mála í dag, drekka meira vatn og minna TAB x-tra.

Lilja gáfnaljós :þ

Ég er svo gáfuð, eða þannig. Sit hér og drekk tab og narta í osta og fatta svo að til að blóðprufurnar séu marktækar þá þarf ég auðvitað að vera fastandi fyrir þær. Daaah! Fer bara á þriðjudagsmorguninn í staðin og man þá að fasta frá miðnætti.

sunnudagur, apríl 25, 2004

Gaman ;)

Mér finnst svo frábært að vita af því að það eru fleiri í átaki að fylgjast með blogginu mínu, það hvetur mig svo áfram. Mér finnst að ég verði nú að standa mig betur fyrst einhverjar eru að fylgjast með þessu. Svo finnst mér líka meiriháttar að geta fylgst með öðrum í sömu sporum. Annars langar mig að hvetja alla til að skoða sérstaklega bloggið hjá Fegurðarbollunni. Þó það sé langt síðan hún skrifaði síðast, eru bara svo rosalega góðar pælingar þarna sem allir hafa gott af að lesa.

Annars er ég bara búin að standa mig vel í dag. Fékk mér að vísu tvö hrökkbrauð í vinnunni, þ.e. EKKI Fiber+, en ég held að það skemmi ekkert of mikið. Það voru bara öll salötin búin í matsalanum þegar ég ætlaði að kaupa mér :( svo ég fékk mér bollasúpu og tvær hrökkbrauðssneiðar í staðin. Nú langar mig til að vigtin sýni undir 91 kílói á morgun... best samt að vera með hóflegar væntingar ;)

Og Olla duglega, ef þú lest þetta, endilega settu inn kommentakerfi á bloggið þitt svo maður geti kommentað. Mig dauðlangaði að segja eitthvað áðan þegar ég var að lesa þetta, en fann engan stað til að tjá mig. En allavegana þá ertu að standa þig rosalega vel og það er ekkert óeðlilegt að maður standi stundum í stað. Pirrandi, æ nó, en maður verður bara að láta reyna á þolinmæðina ;)

Stend í stað

Nú var ég aftur 91,2 kg í morgun. Þetta er nú meiri óþolinmæðin í manni, nú er ég strax orðin pirruð yfir að vera ekki léttari en í gær. Svona er maður klikkaður, veit vel að það er óraunhæft að ætlast til að maður léttist endilega á hverjum degi, en samt!!! Annars var ég að borða egg og beikon, bara þennan venjulega skammt sem ég fæ mér, en er alveg pakksödd og kem varla meiru niður. Annars var ég að browsa og fann bara slatta af svona átaksbloggum, setti inn nokkra linka ;)

laugardagur, apríl 24, 2004

Ojæja!

Vigtin sýndi 91,2 kg áðan, það er svo sem enginn munur frá í gær í rauninni. Maður hefur víst ekki endlaust magn af vatni til að losa út ;) Nú vona ég bara að fitubrennslan sé að komast í gang. Þá er líka eins gott að fara ekki að skemma það með einhverju kolvetnasukki. Ég er búin að fá mér egg og beikon í morgunmat og greipsafa. Annars plataði ég lækninn sem var á vakt í gær til að skrifa upp á blóðprufur fyrir mig. Ætla að láta tékka á kólesterólinu og þríglýseríðum svona að gamni. Ákvað að láta líka tékka á blóðsykrinum, og reyndar líka natríum, kalíum, kreatínini og hemóglóbíni svona að gamni ;) En ég læt ekki gera þetta fyrr en á mánudaginn. Hefði reyndar verið áhugavert að vita kólesterólið og þríglýseríðin áður en ég byrjaði á þessu fæði og sjá hvort það væri einhver munur, en þetta er líka ágætt.

föstudagur, apríl 23, 2004

90,9 kg, jahérna!

Það er alldeilis að þetta rennur af. Var sem sagt 90,9 kg í morgun. Ég held samt að nú hljóti þetta hraða þyngdartap að fara að hætta, vatnið eflaust að verða búið ;) Svo geta auðvitað verið töluverðar dagsveiflur á þyngdinni. En samt ekki leiðinlegt að þessi ljótu kíló sem bættust á mig núna séu farin svona fljótt. Ég stóð mig ágætlega í dag, fyrir utan 2 After Eight súkkulaðistykki sem ég fékk mér í vinnunni. Sjáum hvað vigtin segir á morgun. Ég ætla samt að vigta mig daglega þó svo að ég viti vel að það er ekkert mikið að marka mun á milli daga, maður verður að skoða árangurinn til lengri tíma. En þetta hvetur mann áfram ;)

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Sko mig :D

Í fyrsta lagi er ég búin að standa mig vel í dag (þ.e. fimmtudaginn 22. apríl) í mataræðinu. Egg og beikon í morgunmat ásamt greipsafa. Fékk mér reyndar ekki hádegismat nema bara 3 Babybel osta og nokkrar svona Strandamør sneiðar. Svo var reyndar breytt út af vananum og ekki hafður miðdegisverður þegar krakkarnir komu heim af leikskólanum, heldur fengum við okkur meira svona snarl. Ég fékk mér ferskt salat með fetaosti og rækjum, og smá salatdressingu. Svo í kvöldmat fékk ég mér þurrsteikt nautahakk og ofnbakaða tómata með bráðnum osti og kryddi (jömm) og smá hvítlauksdressingu út á. Svo leyfði ég mér svolítið kolvetnasnautt súkkulaði í kvöld (fæst í heilsubúðinni hér) og er bara ósköp ánægð með mig :D

Í öðru lagi er ég búin að vera skrifa niður upplýsingar um kolvetnasnautt fæði og kúrinn sem ég er á og setja linka á það. Ég er líka búin að sortera linkana betur og bæta við nokkrum. Svo setti ég inn þetta fína spjallbox, ef einhver skyldi hafa áhuga á að tjá sig ;)

Jibbííí, 91,8 kg

Þetta bara rennur af manni, allavegana þessi vatnskíló, hehe. Enda pissaði ég ekkert smá í gær, bara þvílík hreinsun. Jæja, þarf að skutlast með krakkana á leikskólann, fæ mér egg og beikon þegar ég kem heim aftur ;)

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Og smá meira...

Ég tók mig til og bakaði sveppi, fyllta með gráðosti, og hafði með matnum. Hrikalega gott. Nú sit og og fæ mér pistasíuhnetur og Babybel osta. Ætti eiginlega ekki að borða svona mikið af pistasíuhnetum :/ en þær eru nú skárra en kartöfluflögur eða nammi. Jæja, ég lagði þær til hliðar, ekki fleiri pistasíuhnetur í kvöld.

Það er enn allt voða fínt hér á heimilinu eftir tiltektina miklu á föstudaginn, mér finnst það æðislegt og kemur mér í svo gott skap :D

93,6... eða hvað?

Þetta sýndi vigtin í morgun, en svo er ég búin að vera sípissandi í allan dag svo vatnslosunin er greinilega komin almennilega í gang. Sem er fínt, því fyrst þarf ég að losna við það áður en brennslan ræðst á fituna. Svo steig á á vigtina áðan að gamni, í öllum fötunum, og var 93,5 kg, þannig að ég er greinilega búin að pissa einhverjum helling í dag, hahaha. Jamm það er fínt ;) Svo verð ég bara að monta mig því ég er sko búin að standast þvílíkar nammifreistingar í dag, alltaf verið að bjóða manni eitthvað, en ég afþakkaði allt. Nú er ég að fara að elda miðdegisverðinn, buff og steikt grænmeti... og reyndar kartöflumús fyrir kallinn og krakkana ;)

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Jamm og jájá

Ekkert kolvetnissukk var það þennan daginn, eða sko eiginlega í GÆR, því það er komið fram yfir miðnætti, og mikið er ég glöð. Sit samt hér og hakka í mig litla Babybel osta og norska Strandamør í sneiðum. En þið sem ekki vitið hvað Strandamør er þá er það svona norsk pylsa, minnir kannski svolítið á bjúgu eða pepperoni, þessi er frekar mjó. Norðmenn eiga fullt af svona alls konar pylsum sem eru étnar ofan á brauð eða sem snakkbitar bara. Samkvæmt honum Ásmundi þá á maður reyndar aðeins að spá í kaloríunum líka, eða sko samkvmt hans reynslu þá er ekki alltaf nóg að bara skoða kolvetnin. Ef maður étur of mikið þá léttist maður hægar eða stendur í stað. Sjáum til hvað vigtin segir á morgun, ég er allavegana búin að standast kolvetnin ;)

Hjúkk sko!

Strax komin niður í 93,3 kg í morgun, eins gott maður. Þetta var alveg hræðilegt að vera komin svona hátt upp aftur. Vona að þessi kíló verði bara fljót að fara aftur. Annars er ég búin að vera svakalega dugleg í dag, neitaði meira að segja fullum skálum af sælgæti sem voru á boðstólnum í vinnunni. Mamma sendi mér bókina þeirra Ásmundar Stefánssonar og Guðmundar Björnssonar um, ÞÚ GETUR grennst og breitt um lífsstíl, um kolvetnasnautt fæði. Ég er aðeins byrjuð að lesa. Margt af því sem stendur þarna vissi ég svo sem alveg, en það eru t.d. fullt af girnilegum uppskriftum þarna og eins töflur með næringargildi matvara. Mjög sniðug bók ;) Annars ætla ég að hafa svínasnitzel í matinn og steikt grænmeti með. Bý svo eflaust til smá rjómasósu úr steikarsoðinu af kjötinu :D

mánudagur, apríl 19, 2004

Jömm!

Þá er maður búinn að fá sér egg og beikon og greipsafa, ég fór bara fyrst með krakkana í leikskólann og keypti greipsafa í leiðinni. Þó klukkan sé nú bara að verða hálfellefu er svo gott að koma sér svona af stað. Svo þarf ég að fara að vinna á eftir, á kvöldvakt, og ég verð að passa að taka eitthvað með mér í vinnuna sem er kolvetnasnautt, svo ég freistist ekki í brauð eða eitthvað annað sem ég á að forðast. En nú ætla ég að leggja mig smá ;)

OMG!!!

Hvernig er þetta hægt? Vigtin sýndi heil 94 kg í morgun. Þetta er nú bara alveg hræðilegt. Ég sem var komin niður í 87. Ok, eitthvað af þessu er náttúrulega bara vökvi sem hefur safnast á mig, en samt!!! Nú er það sko ekkert elsku amma hér, nú bara verður tekið á málunum og það strax. Er farin að steikja mér egg og beikon. Á því miður ekki greipsafa í ísskápnum, en ætla að versla hann á eftir. Fæ mér bara vatn, enda er það hollt og gott.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Djamm

Ég var sko á svaka djammi í gær, í þrítugsafmæli hjá Mumma. Ég drakk auðvitað fullt af bjór og át góðan mat og sælgæti. Kolvetnissukk í meira lagi ;) En nú er ný vika og engin afsökun lengur. Í dag er að vísu letidagur eftir djammið mikla, en á morgun byrjar alvaran, og í þetta skipti eru engir páskar framundan og engin partý eða veislur heldur. Þannig að nú verður maður bara að standa sig.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

NAMMI!!!

Ég held að ég fari ekkert almennilega af stað fyrr en eftir helgina. Ég var að fá pakka í dag með íslensku nammi og litlum páskaeggjum, hver stenst svoleiðis? Ekki ég og ég vil það ekki einu sinni, þ.e. standast það. Það er nú ekki oft sem það er til Apollólakkrís hér og Piparpúkar... og hvað þá íslensk girnileg páskaegg :D

mánudagur, apríl 12, 2004

Ææææ

Ekki góður dagur. Páskadagur í gær og ég fékk mér ís eftir matinn, með íssósu. Vöfflur í nótt og meira að segja pizzu. Svo í dag stalst ég í nammi og fékk mér svo cheeriosdisk og eina brauðsneið. Kolvetnasukk sukk sukk. Dem!!!

laugardagur, apríl 10, 2004

Næturvaktir

Er á næturvöktum alla helgina og ég er allavegana búin að standa mig ágætlega í gær og í dag. Sef bara af mér páskadaginn og vona að krakkarnir klári allt nammið á meðan ;)

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Ojæja!

Hálffurðulegur dagur í dag líka, það ruglar mann eitthvað þegar það er svona páskafrí. Ég fór í bíó í dag með stelpunum og stalst til að fá mér súkkulaði. Að öðru leyti hefur þetta verið ágætur dagur. Líka ágætt að fá sér smá labbitúr niður í bæ og heim aftur í góða veðrinu ;)

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Dagurinn já

Ekki sá besti. Byrjaði vel á eggjum, beikoni og greipsafa. Svo fórum við til Svþíþjóðar að versla og ég var svo svöng að ég bara varð að kaupa mér eitthvað að borða á leiðinni, og það er bara ekkert til sem hentar kolvetnissnauðu fæði í svona skyndibitamat. Fékk mér pylsu í brauði. Svo þegar ég kom heim stóðst ég ekki mátið og fékk mér krembollur, sem reyndar eru svo léttar að það er ekki allt of mikið af kolvetnum í hverri og einni. Svo var ég að borða slatta af hnetum. Í kvöld ætlum við að elda nautasteik og hafa kartöflubáta með og mig langar svoooo í kartöflubáta. Ég held ég ákveði bara að ég megi fá mér smá, því annars ét ég þá hvort sem er og fæ svo bara samviskubit. Hmm. Jæja, ég ætla þó allavegana að láta allt nammi og brauð alveg vera. Ekki svo sem versti dagurinn, en samt ekkert búin að standa mig neitt sérstaklega vel í dag. Er samt búin að missa ca 1,5 - 2 kg síðan ég byrjaði á mánudaginn, en það er auðvitað eiginlega bara vökvi. En ég þarf að losna við hann fyrst áður en fitan fer að fara.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Gengur enn ;)

Er búin að passa mig vel í dag. Stóðst meira að segja mátið að fá mér marsípankökuna sem var í vinnunni, og langaði eiginlega bara ekkert í hana. Keypti mér reyndar hnetur til að geta nartað í í kvöld, en maður má fá sér svoleiðis í hófi. Þær eru allavegana mun skárri en annað snakk. Komin í ca 40 grömm kolvetni með greipsafanum í dag, ca 17,5 grömm ef hann er ekki meðtalinn. Það gefur mér pláss fyrir smá hnetusnakk í kvöld ;)

mánudagur, apríl 05, 2004

Fínn dagur

Þessi dagur gekk bara vel. Samkvæmt mínum útreikningum, með aðstoð hot.is, þá hef ég innbyrt svona ca 45 grömm af kolvetni í dag, að greipsafanum meðtöldum. Fyrir utan hann myndi þetta gera svona rúm 20 grömm af kolvetni. Held að það sé bara alveg ásættanlegt ;) Rosa finnst mér gott að hafa þetta blogg og geta skrifað þetta svona fyrir sjálfa mig að fylgjast með. Nú þyrfti ég eiginlega að læra að setja upp línurit einhversstaðar svo ég geti sett inn tölurnar mínar... eða allavegana hafa einhverja töflu ;)

Og þá er það byrjað...

Furðulegt hvað manni líður strax vel. Ég var að borða morgunmatinn, egg og beikon og eitt glas af hreinum greipsafa. Mér finnst bara frábært að vera byrjuð og er einhvernvegin svo tilbúin að takast á við þetta. Enda hef ég svo sem oft rekið mig á að smávægilegar breytingar virka ekkert á mig, heldur er það helst að umturna bara öllu, þá held ég mig við það. Vona bara að þetta gangi núna... nei annars, ekkert svona... þetta bara gengur núna ;) Ég er reyndar að hugsa um að gera eina breytingu, og það er að drekka ekki greipsafa með hverri máltíð heldur bara á morgnana. Og svo þarf ég að muna að taka eina skeið af kókosolíunni, þrisvar á dag. Búin að taka eina.

Samkvæmt hot.is gerir morgunmaturinn minn ca 23,6 grömm kolvetni. Samkvæmt þeirri sem ég fékk upphaflega kúrinn hjá þá eiga reyndar þessi kolvetni frá greipsafanum ekki að teljast með í heildina yfir daginn. Veit nú ekki alveg rökin á bak við, en líklega vegna þess að greipsafi á að auka brennsluna. En, well, skiptir ekki öllu. Þetta virkaði allavegana og vonandi virkar það aftur. Reyndar hef ég heyrt að kolvetnasnautt fæði virki alltaf best í byrjun en ef maður tekur svona stórar pásur þá gæti maður þurft að minnka enn meira við sig kolvetni til að hann beri sama árangur. Það kemur þá bara í ljós ef svo er.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Kolvetnasvall!!!

Ég er greinilega kolvetnafíkill. Ég er sko búin að vera allt of góð við mig um helgina. Ég haga mér bara eins og alkarnir sem detta í það og drekka eins og þeir mest mögulega geta rétt áður en þeir fara í afvötnunina. Ég er bara búin að vera í algjöru kolvetnasvalli hér um helgina og takmarkið mitt að þyngjast ekki meira fyrir morgundaginn er alveg örugglega farið til fjandans. En það breytir því ekki að ég ætla að byrja aftur á kolvetnasnauða fæðinu á morgun og eiginlega hlakka bara til. Nú ætla ég bara að fara eftir stranga kúrnum eins og ég gerði í upphafi (og svo væri nú ekki vitlaust að fara að nota kortið sem ég á í ræktina). Þetta passar ágætlega, páskahelgin verður ekki fríhelgi á kúrnum, enda verð ég hvort sem er að vinna. Verst með helvítis konfektið sem ég VEIT að verður á boðstólnum. Ég bara verð að fara í andlegan undirbúning og reyna að standast það. Helgin eftir páska verður hins vegar fríhelgi, sem er mjög fínt því þá erum við boðin í þrítugsafmæli ;)

En ég á egg og beikon og greipsafa. Nú þarf ég að muna að drekka vel af vatni og minna af diet gosinu. Svo þarf ég að passa að taka með mér eitthvað kolvetnasnautt til að borða í vinnunni annað kvöld, annars freistast ég bara í brauðsneiðarnar þar sem ekkert annað er í boði.

Gangi mér vel!