Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

mánudagur, maí 31, 2004

Jahérna!

Var 87,1 kg þegar ég vigtaði mig áðan, weird. Samt át ég sko tonn af kökum og gúmolaði í gær. Eins gott að passa sig í dag. Er að fara á kvöldvakt svo bless í bili.

sunnudagur, maí 30, 2004

Gúlp!

Úff hvað ég át mikið af kökum og brauðtertum í þessari veislu. Jeminn eini sko. En mikið var þetta nú gaman samt, yndislegt að hitta elsku bestu ömmu mína og alveg frábært að hitta Inga, Maríu og Irmu loks aftur, allt of langt síðan maður hefur séð þau ;) Við erum bara nýkomin heim, enda langt ferðalag. En nú fer ég og brugga meiri Olludjús og borða ekkert meira í kvöld (enda klukkan orðin hálfeitt og eiginlega kominn nýr dagur).

Skárra

86,8 kg. Get svo sem sætt mig við það. Er farin í fermingarveislu (tekur svona 4 tíma að keyra) og ætla að leyfa mér eitthvað gúmolaði þar.

laugardagur, maí 29, 2004

Aðhald, fráhald, viðhald, framhald....

Er mikið búin að spá í þessu. Fólk segist oft vera í aðhaldi þegar það er í megrun, er það ekki? En ef maður spáir í þessu þá er maður bara alls ekkert í aðhaldi heldur í fráhaldi. Við erum að halda ákveðnum mat og matarmagni frá okkur, ekki að okkur ;) Svo þegar kjörþyngd er náð þá þarf maður að vera í viðhaldi, sem sagt halda þessu við... og það er framhaldið á fráhaldinu okkar :þ

Annað sem ég er mikið búin að spá í, afhverju er það svona ljótt að vera einfaldlega í megrun? Það er eins og það sé einhver skömm yfir þessum frasa, "að vera í megrun". Komin neikvæð merking á þetta eins og það séu bara einhverjar desperat kerlingar sem hafa enga sjálfsstjórn sem fara í megrun. Nú er fólk í átaki, aðhaldi, fráhaldi, breyttum lífsstíl o.s.frv.

Annars var ég bara ekkert of dugleg í fráhaldinu mínu í kvöld... eða gær... það er víst kominn nýr dagur. Át hálft súkkulaðistykki, sem sagt ca 50 grömm. En jæja, þá er allavegana nammið í skápnum búið. Þá er bara að takast á við kræsingarnar í fermingarveislunni á morgun.

Frekar fúlt :(

Var 87,0 kg í morgun og varð bara ferlega svekkt. Ég var 86,4 kg í gær og ég var ekkert að svindla, stóð mig bara vel og fór í leikfimi og alles. Fór líka í leikfimi í morgun, en það vóru nú lítil átök þar sem ég var bara með leiðbeinanda að fara yfir tækin og láta hann útbúa prógramm fyrir mig.

En það er erfitt þegar það koma svona dagar þegar maður gerir allt rétt en léttist samt ekki og jafnvel þyngist. Svo erum við að fara í fermingarveislu á morgun sem gerir þetta nú örugglega ekki auðveldara fyrir mig. Kannski finn ég eitthvað kolvetnasnautt þarna, vona það.

föstudagur, maí 28, 2004

Uppþembd og asnaleg

Já svona líður mér og samt er ég búin að vera voða dugleg í dag. Ekkert svindl og fór meira að segja í leikfimi og alles. Afhverju líður mér samt eins og ég verði 88 kg á morgun? Vonandi er þetta bara eitthvað bull í mér.

Elsku átaksgellurnar mínar :D

Það eru alltaf að bætast fleiri átaksgellur í blogghópinn. Mér finnst það alveg frábært. Þessar stelpur... ÞIÐ stelpur... veitið mér svo mikinn stuðning og aðhald. Það hvetur mig svo áfram að fylgjast með ykkur og vita að þið fylgist með mér. Það er svo gott að geta deilt sigrum og sorgum með þeim sem skilja mann fullkomlega og vita alveg hvað maður er að berjast við. Við veljum hver sína leið til að takast á við vandamálið, enda hentar ekkert sama leið öllum. En ég er fullviss um að aðalmálið er að finna þá leið sem passar manni og maður er sáttur við, annars gefst maður fljótt upp. Ég skoða öll þessi blogg á hverjum degi og bíð spennt eftir nýjum færslum.

ÞIÐ ERUÐ YNDISLEGAR!!! TAKK FYRIR AÐ VERA TIL :D

Smá pæling hér. Ég stend mig svo oft í því að skoða aðrar konur sem eru kannski í svipuðum þyngdarklassa og ég, og velti fyrir mér hvort ég sé nú feitari eða grennri en þessi. Virkar kannski bjánalegt, en stundum er erfitt að sjá sjálfan sig með hlutlausum augum svo ég skoða aðrar konur og reyni þannig að sjá hvernig ég lít út í augum annarra. Skilur einhver hvað ég er að meina :Þ

En reyndar er ég að taka eftir að ég er að grennast slatt í andlitinu núna. Reyndar er ég þannig heppin að fitan hefur alltaf sest seint á andlitið á mér, en mér finnst það samt farið að verða meira áberandi að ég er grennri í andlitinu. Já ég má skrifa um allt svona hér þó þetta virki kannski eins og ég sé voða upptekin af útliti mínu og annarra. Ég er það alls ekki svo mikið, en þetta er átaksbloggið mitt og hér MÁ ég setja allar svona pælingar niður ;)

fimmtudagur, maí 27, 2004

Bara sæla :D

Já, þetta var nú bara rétt hjá henni Laugu, ég ljóma eins og sól. Vigtin sýndi 86,4 kg áðan. Það er nú ekkert smá munur að sjá 86 komma eitthvað í staðin fyrir endalaust 87 komma eitthvað. Merkilegt hvað svona lítið atriði getur gert mikið fyrir mann andlega ;) En ég veit ekki hvort ég nenni í leikfimi í dag, er að fara á kvöldvakt á eftir og held satt að segja að mig langi frekar að eyða morgninum í leti og að leggja mig, heh. Já þetta er sko leti. En ég er nú búin að panta mér tíma hjá þjálfara á laugardaginn sem ætlar að fara með mér í tækin og útbúa prógramm fyrir mig. Og svo er það bara EKKERT nammi í dag ;)

miðvikudagur, maí 26, 2004

Skýið mitt lekur

Stalst í smá nammi - ARG - afhverju er þetta til hér á heimilinu??? Og djöfuls aumingi er maður að standast þetta ekki. Vona að þetta skemmi ekki fína árangurinn minn, buhuhu. Jæja, það kemur í ljós. Engum um að kenna nema sjálfri mér. En ég á ekki von á að vera 90 kg á morgun samt ;)

Ég svíf á skýi

Var 86,5 kg í morgun, jibbí og hey!!! Kannski helst ég eitthvað undir þessum ÖMURLEGU 87 kg núna. Þau eru sko búin að vera erfiður þröskuldur að komast yfir. Vonandi fer þetta nú bara að síga almennilega niður á við eftir þetta. En þetta þýðir að ég er ekki lengur í offituhópnum heldur bara í yfirþyngdarhópnum. Sem sagt flokkast ekki sem obesity heldur overweight, jeeeee!!!

þriðjudagur, maí 25, 2004

Ég er dugleg :D

Er bara mjög ánægð með daginn. Fékk mér að vísu eitt Lindubuff, en ég set það í sama flokk og krembollurnar svo ég held að eitt stykki hafi ekki mjög mikil áhrif á mig. Enda er ég nánast ekkert annað kolvetni búin að láta ofan í mig í dag. Jú reyndar þá fór ég í RÆKTINA og fékk mér eitt lítið próteinsúkkulaði eftir æfingarnar, það innhélt 16 grömm af kolvetnum. En málið er samt að undanfarið þegar ég hef farið ræktina þá hef ég lent í því að verða alveg hræðilega óglatt, skjálfa bara og svima eftir æfingarnar, sem ég set á reikning blóðsykursfalls. Þannig að núna fékk ég mér þetta litla próteinsúkkulaði og ég hef ekkert fundið fyrir þessari vanlíðan eftir æfingarnar núna :D Þannig að ég vil meina að ég hafi þurft á þessum kolvetnum að halda og þær hafi farið beint í brennslu og til heilans ;) Svo ég er bara nokkuð bjartsýn á vigtina á morgun, vona bara að ég verði svo ekki fyrir vonbrigðum. En ég er allavegana ánægð með daginn :D

Elsku góða vigt :D

Ég er rosalega ánægð. Talan 87,4 blasti við mér áðan þegar ég steig á vigtina. Þannig að þessi helgi hefur í raun ekki skemmt neitt. Bara bæst á mig smá vökvi sem hefur farið strax aftur. Þvílíkur léttir :D Nú er ég að fá mér harðfisk með sméri ;) Hann er æðislegur. Finnst alveg ferlegt að það sé ekki hægt að kaupa harðfisk hér í Noregi, hann er svo tilvalinn sem snakk þegar maður er á svona kolvetnasnauðu fæði. En ég á allavegana harðfisk núna :D Svo er bara að birgja sig upp af þessu þegar maður fer til Íslands og taka með sér út aftur ;) Jæja, kannski maður ætti drífa sig að þvo íþróttabuxurnar sínar og skella sér í leikfimi í kvöld :D

Smá oggulítið sukk

Ég leyfði mér eitt Rís súkkulaði í kvöld, hef látið hitt nammið alveg vera. Verð svo bara að moka þessu í krakkana og kallinn til að þetta hverfi sem fyrst, hehe. Annars er ég að hugsa um að brugga smá Olludjús þó svo að klukkan sé orðin margt. Vonandi verður vigtin ekki allt of vond við mig á morgun... þ.e. á eftir :Þ

mánudagur, maí 24, 2004

HJÁLP!!! Veitið mér styrk!

Það gjörsamlega flóir allt í íslensku girnilegu sælgæti hér; lakkrísreimar, piparpúkar, mónuhlaup, Lindubuff, Rís, Nóakropp o.fl., o.fl. Hjááááálp!!! Sonurinn fékk nefninlega afmælispakka frá ömmunum og öfunum og öðrum ættingjum á Íslandi og þetta fylgdi með. Sem BETUR FER kom líka slatti af harðfiski, en ég má borða hann. Stalst samt í oggulítið Nóakropp áðan. Sjíss, þetta er erfitt sko.

Annars var ég um 89 kg í morgun, bjóst svo sem alveg við því verra eftir sukkhelgina, sérstaklega pizzuátið, en pizza virðist alltaf fara mjög illa með þyngdina hjá mér. Svo að ég er að reyna og reyna og reyna að standast þetta sælgæti núna :S

sunnudagur, maí 23, 2004

Og meira sukk, lalalalala!!!

Jamm! Dagurinn byrjaði svo sem vel, fékk mér egg og beikon og Olludjús. Svo lá leiðin í Vormsund þar sem horft var á skemmtilega torfæru, íslenskir keppendur og alles. Við lögðum af stað um ellefu og vorum komin þangað um eitt. Drakk tvær Pepsi Max á torfærunni og smá vöfflubita, ekkert annað í boði sko því pylsurnar voru búnar. Svo var torfæran búin um klukkan sjö og við ákváðum að fá okkur eitthvað að borða áður en við héldum heim, enda öll að sálast úr hungri og um tveggja tíma keyrsla heim. Fundum einhvern pizzustað í bæ sem heitir Jessheim og ég sem sagt bara gúffaði í mig pizzu í kvöld. Ætla ekki einu sinni að skammast mín fyrir það. Veit ekkert hvað vigtin sagði eða segir og það verður vandamál morgundagsins.

laugardagur, maí 22, 2004

Suuuuukk!!!

Ekki stóð ég nú við það að fá mér smá. Það eina sem ég er búin að borða í dag eru kökur, sælgæti og brauðréttur. Þá verð ég örugglega aftur um eða yfir 90 kg á morgun :S gaddem!!! Furðulegt hvað maður gerir stundum hluti gegn betri vitund. En ég get engum kennt um nema sjálfri mér svo það verður bara að hafa þetta og byrja þá upp á nýtt, eina ferðina enn *andvarp*

föstudagur, maí 21, 2004

Svei mér þá!

Ég var "bara" 87,1 kg í morgun þrátt fyrir allt krembolluátið mitt í gær. Hjúkk! En svo kvíði ég pínulítið morgundeginum. Þá er ég nefninlega með afmælisveislu fyrir hann Hjalta minn, sem verður tveggja ára, og auðvitað verða kökur og gúmolaði á boðstólnum. Ég hreinlega þori ekki að lofa að ég fái mér ekki smá, og eiginlega langar mig ekki að lofa að ég fái mér ekki smá. Ég er bara að hugsa um að lofa að fá mér BARA smá ;) Jæja, þarf að fara að taka til og baka.

fimmtudagur, maí 20, 2004

Samviskan

Hmm, ok, mér er ekki alveg sama. Ég er búin að parkera krembollunum.

Ekki var Adam lengi í Paradís...

... og ekki ég heldur :( Var 87,0 kg í morgun. Ojæja! Nú er ég í einhverju sukkstuði. Fórum til Svíþjóðar áðan að versla og nú er ég bara hakkandi í mig krembollur og er skítsama, piff!

miðvikudagur, maí 19, 2004

Þori ekki að trúa þessu

Vigtin sýndi 86,8 kg þegar ég vaknaði. Ég bara er ekki alveg að þora að trúa að ég sé komin undir 87 kg. Er viss um að ég verð 87,5 kg á morgun og þetta hafi bara verið einhver vitleysa. Jæja, þessi tala sást þó, nýt þess þá bara að vera undir 87 kg í dag :Þ

þriðjudagur, maí 18, 2004

Ekki lengur fitubolla :D

Var bara að spá þegar ég var að skoða myndirnar sem teknar voru núna um helgina... ég sé ekki lengur einhverja fitubollu þar sem ég er. Ég sé venjulega konu, ekki granna heldur frekar þybbna, en samt venjulega :D Það er bara svo gott að geta skoðað myndir af sér og verið nokkuð ánægður með það. Á tímabili leið mér eins og það fyrsta sem fólki dytti í hug þegar það sá mig væri þessi er nú einum of feit. Og þetta hefur örugglega verið það fyrsta sem margir hugsuðu á þeim tíma sem ég var sem feitust. En núna þá líður mér alls ekki eins og þetta sé það fyrsta sem fólk hugsar þegar það sér mig og það er góð tilfinning að það sé ekki tekið eftir manni vegna þess að maður sé svona feitur. Sem sagt ég upplifi mig ekki lengur sem fitubollu :D

Gaman :D

Í gær var sem sagt þjóðhátíðardagur Norðmanna og mér fannst ég alveg hrikalega góð að standast allt ís-, sælgætis- og kökuátið í kringum mig. Eina svindlið var að ég fékk mér pylsu í brauði. Fékk reyndar átsýkiskast í gærkvöldi og var alveg pakksödd, en allt kolvetnissnautt samt. Vigtin sýndi mér svo töluna 87,1 kg í morgun :D Kannski maður komist undir þessa blessuðu 87 tölu bráðum.

sunnudagur, maí 16, 2004

Ojæja!

Nammið hefur ekki skemmt of mikið, var 87,7 kg í morgun. En það er eins gott að passa sig núna og ekkert meira nammi og svindl sko. Annars fer þetta til fjandans. Næturvakt í kvöld og þjóðhátíðardagur Norðmanna á morgun, úff nóg að gera.

laugardagur, maí 15, 2004

OOOOOOOHHHHH!!!

Svo fékk ég mér smá nammi eftir allt saman, gaddem >:(

Skemmti- og letidagur

Það er sko réttnefni á þessum degi. Fórum í tívolí með alla fjölskylduna og skemmtum okkur konunglega og svo er afslöppun núna og í kvöld með Eurovision :D Varðandi mataræðið þá veit ég ekki alveg hvernig það fer. Ég stalst til að fá mér eina pylsu í brauði eftir tívolíferðina, fórum öll og fengum okkur pylsu og kók (TAB X-tra fyrir mig samt). Svo var ég að narta í smá kolvetnissnautt súkkulaði. Ekkert agalegt svo sem, en samt ekki alveg besta mataræðið. Annars var ég 87,4 kg í morgun líka. Ég var reyndar að byrja á blæðingum svo þær kannski blása mig smá upp. Lofa engu um þyngdina á morgun, vona samt að ég þyngist ekki. Svo er Eurovision í kvöld og það er búið að kaupa nammi. Ég er samt ekkert smeyk við það, ætla bara að halda mig við mitt kolvetnissnauða súkkulaði, þó það verði kannski aðeins of mikið af því í dag. Það eru náttúrulega einhver kolvetni í þeim. Já, og svo á ég meira svona beikonsnakk ;) Þetta verður ágætt! Allavegana er þetta og verður skemmtilegur og góður dagur.

föstudagur, maí 14, 2004

Betra skap í dag

Jámm, ég var allavegana ekki 89 kg í morgun, hehe, heldur 87,4 :D Það er nú fínt. Þá er ég allavegana komin aftur í það sem ég var. Súkkulaðið hefur ekki skemmt þetta sem sagt. Annars fann ég fínt snakk sem ég má fá mér, svona djúpsteikt beikonpura, eða hvað sem þetta heitir. Örugglega bara pjúra fita sko, haha, en það eru pottþétt engin kolvetni í því ;) Svo keypti ég mér kolvetnasnautt súkkulaði í tilefni kvöldsins, en úrslitin í Idol eru núna á eftir :D Sem sagt, góður dagur í dag, ekkert svindl og vigtin á niðurleið.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Ó MÆ GODD!!!

Það hreinlega stukku þrír konfektmolar upp í mig, úps!

Hellú

Vigtin sagði mér 87,7 kg í morgun. Fór í vinnuna án þess að fá mér morgunmat, það var nefinlega ekki til egg og beikon, djö. Borðaði 4 Fiber+ hrökkbrauðsneiðar í vinnunni með áleggi og svo salat með rækjum í hádegismat. Síðan hreinlega svindlaði ég og fékk mér eitt lítið dökkt súkkulaðistykki. Egg og beikon þegar ég kom heim og er bara ekkert búin að borða síðan, enda eiginlega ekkert til og ég nenni ekki að malla neitt heldur. Fæ útborgað á morgun, það verður fínt. En ef ég verð aftur orðin 89 kg á morgun út af þessu eina súkkulaðistykki þá fer ég í stræk og hætti í megrun *grrrr*. Eða líklega geri ég það ekki, en ég verð alveg ógeðslega fúl. Eins gott þú þarna vigt, að þú verðir góð við mig á morgun, og hana nú!!!

miðvikudagur, maí 12, 2004

Andvarp!

Ég er eitthvað niðurstemmd núna. Steig á vigtina þegar ég vaknaði og hún sýndi 88,1 kg, sem ég varð svo fúl yfir. Steig svo á hana aftur aðeins seinna og þá sýndi hún 87,8 kg, skárra, en ég var samt fúl. Já, ég veit, þetta er allt í rétta átt. Ég er bara orðin svo hundleið á að komast einhvernvegin aldrei niður fyrir 87 kg. Er búin að vera föst á þessum stað síðan fyrir jól. Svo sem ekki verið svona dugleg frá því þá og þar til núna, en æ og bleh, bara einhver pirringur í mér. Mig langar svo í eitthvað sætt núna, en ég tími því bara engan vegin að svindla smá og rjúka kannski upp í 89 kg aftur. Svo ég er líka pirruð á að geta ekki svindlað smá án þess að eyðileggja allt *urr*. Sem betur fer á ég enn eftir smá kolvetnissnauðan ís sem ég bjó til, ætla að fá mér aðeins af honum á eftir.

Það koma svona dagar þar sem mig langar bara að gefa skít í þetta allt, nenni þessu ekki og pirrast bara yfir að ekkert gangi, en hingað til hafa þessir pirringsdagar aldrei enst lengi og bara bjartsýnin og jákvæðnin tekið við aftur. Á nú alveg von á að það gerist núna líka, en djö... er gott að fá svona útrás *garg*.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Og enn skríður þetta í rétta átt

Vigtin sýndi 88,0 kg þegar ég vaknaði svo þetta er allt í rétta átt. Hef svo sem afskaplega lítið að segja. Er að taka nokkrar næturvaktir núna, reyni bara að hafa með mér osta og norskar pylsusneiðar til að narta í ;) Set inn fleiri uppskriftir þegar ég hef tíma.

mánudagur, maí 10, 2004

Þetta mjakast

Jæja, þetta er aðeins að mjakast niður á við. Var 88,2 kg í morgun. Vonandi heldur þetta bara áfram að mjakast í þessa átt. Ég er búin að fá mér egg og beikon í morgunmat, sem var eiginlega um hádegið, fékk mér svo reyndar smá jarðhnetur og svo fórum við fjölskyldan á MacDonalds. Þar var hægt að fá þetta fína salat með grilluðum kjúklingi og beikonkurli, alveg eðal sko ;) Svo leyfði ég mér smá kolvetnasnautt súkkulaði áðan. Olludjúsinn er ég auðvitað búin að drekka og líka smá TAB X-tra. Svo er ég að fara á næturvakt á eftir, verð eiginlega að malla smá Olludjús fyrst svo það verði til nóg á morgun. Best að skella sér í búðina og kaupa sítrónu ;)

sunnudagur, maí 09, 2004

Húff hvað það er heitt

Hitinn fór í 28 stig í dag, þetta er alveg ótrúlega hlýtt miðað við að maí er nýbyrjaður. Ég fór svo ekkert í leikfimi í dag, steinsofnaði þegar Hjalti Sævar tók lúrinn sinn, og svo var okkur boðið í heimsókn til vinafólks. Þar erum við sem sagt búin að sitja úti í garði og hafa það gott allan seinnipartinn. Þau búa eiginlega uppi í sveit, allavegana er bóndabær þarna rétt hjá með hestum, hænum og fleiri dýrum. Ég var alveg svakalega staðföst og drakk bara vatn en ekkert gos. Svo pöntuðu þau pizzu, en ég lét Bjögga kaupa fyrir mig kjúklingasalat ;) Er bara verulega ánægð með mig. Mér finnst Olludjúsinn rosalega svalandi, er einmitt nýbúin að blanda mér eitt glas af honum. Ég hreinlega veit ekki hvort hann virkar mjög vatnslosandi á mig, en það er líka svo heitt að ég er búin að svitna alveg svakalega og mása og blása og örugglega tapað einhverjum vökva þannig. En jújú, ég er alveg búin að vera þó nokkrum sinnum á klósettinu ;)

Olludjús

Jæja, þá er bruggið tilbúið og ég byrjuð að drekka, hehe. Mér finnst þessi djús bara mjög fínn á bragðið. Það verður spennandi að vita hvort ég eigi eftir að eyða deginum á klósettinu í framhaldi af þessu :Þ Annars var ég 88,5 kg í morgun, hefði nú viljað sjá minni tölu, en þetta er þó skárra en 89 kg. Svo er ég að hugsa um að reyna að fara í ræktina í dag og púla smá, verð að drífa mig af stað aftur svo ég detti ekki úr gír hvað það varðar. Btw. Hjalta Sævari fannst djúsinn EKKI góður þegar hann fékk að smakka, sopinn kom bara beint út úr honum aftur ;)

laugardagur, maí 08, 2004

Engifer og sítróna

Það angar allt húsið af engiferi og sítrónu, er nefninlega að malla Olludjús ;) Hlakka til þegar hann verður tilbúinn. Ég reyndar komst að því að það á EKKI að kreista safann úr henni ÁÐUR en maður rífur börkinn. Ég endaði á að skella öllu gumsinu ofan í pottinn, fyrir utan safann sem ég var búin að kreista, en hann er vel geymdur í Tupperware dollu í ísskáp til morguns ;) Það er nú meira hvað ég er klár :Þ

Annars er ég búin að ákveða að passa mig betur á kvöldin, hætta þessu eilífa narti. Því þó ég passi að þetta sé kolvetnasnautt er örugglega ekki gott að vera sífellt að narta, þá fær líkaminn bara sitt úr matnum og þarf ekkert að ráðast á neinn aukafituforða. Allavegana ætla ég að athuga hvort þetta breyti einhverju ;)

föstudagur, maí 07, 2004

Uppskriftir

Var að setja inn eina upskrift frá Stórukonunni: Ítölsk kjötsúpa, og eina frá Laugu: Grillaður skötuselur með beikoni. Örugglega svakalega gott :D Já svo setti ég inn engiferdjúsið hennar Ollu (eða er það djúsinn). Hann er víst vatnslosandi og svaka góður.

Afhverju getur maður ekki lést um kíló á dag?

Bara svona óskhyggja ;) Annars er ég að elda mér þessa fínu osta- og skinkuböku eftir einni uppskriftinni hér. Líst ekkert smá vel á hana. Annars er ég ekki búin að innbyrða meira en ca 24 g af kolvetnum í dag, vona að það hafi sín áhrif. Ég á nú eftir að borða eitthvað meira, t.d. eggjabökuna góðu sem inniheldur ca 1 g kolvetni í skammti, og svo kannski ég leyfi mér smá salthnetur með Idolinu ;)

Arg og pirr!!!

Helvítis vigtin sýndi um 89 kg í morgun, hvernig er hægt að bæta á sig svona miklu á ekki lengri tíma??? Vökvi, vökvi, vökvi sem safnast á mann undir eins, engin önnur skýring á þessu. Líkaminn hlýtur bara að hafa tekið öll aukakolvetnin og búið sér til nýjan kolvetnaforða. Jæja, þá fer dagurinn í dag og á morgun í að losa mig við þetta. Well, þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði og.... jamm!!!

fimmtudagur, maí 06, 2004

Smá svindl :/

Jamm, verð víst að viðurkenna það. Stalst til að fá mér eitt lítið súkkulaðistykki, dökkt að vísu, og svo eina pínulitla sneið af súkkulaðiköku. Það var ein í vinnunni sem átti afmæli svo það var boðið upp á smá svona gúmolaði. Svo var ég svo svöng þegar ég kom heim af kvöldvaktinni að ég fékk mér kjúklinganaggana sem voru afgangs frá kvöldmat fjölskyldunnar. Þeir væru ekkert slæmir ef ekki væri fyrir þetta helv... rasp á þeim :( Vona að þetta skemmi ekki allt of mikið, það verður þá bara að hafa það.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Vigtun og mæling

Fór á vigtina og hún kom verulega skemmtilega á óvart, 87,5 kg, jibbí!!! Svo ætla ég að fara að dæmi hennar Ollu og setja inn málin mín hér. Tölurnar í sviganum eru málin mín eins og þau voru þegar ég byrjaði í átakinu, 10. janúar 2003. Setti þær þarna að gamni svona til að minna mig á hvað ég hef náð ROSALEGA góðum árangri og til að sýna hinum stelpunum hvað það er frábært að eiga þessar tölur til að bera sig saman við seinna meir :D Maður verður svo rosalega ánægður með sig sko ;)

Brjóst:...........107 cm (129)
Mitti:.............85 cm (108)
Magi..............103 cm (129)
Mjaðmir:.........106 cm (127)
Upphandleggur:.34 cm (41)
Læri:.............65 cm (76)
Kálfi:.............39 cm (45)

Annars er ég að búa til kolvetnasnauðan ís, namm namm. Uppskriftin er náttúrulega hér inni, undir eftirréttir. Oh hvað ég hlakka til að borða hann, en hann verður örugglega ekki tilbúinn fyrr en á morgun. Ég er bara hissa á að ég skuli ekki hafa gert þetta fyrr, eins og þetta er nú einfalt að gera heimalagaðan ís.

þriðjudagur, maí 04, 2004

Uppskriftir

Jæja, ég er aðeins byrjuð að setja inn uppskriftir. Þetta tekur allt sinn tíma að pikka inn og fiffa til, svo hafið smá þolinmæði. Það á eftir að bætast við ;) Linkurinn er hér til vinstri.

Fínn dagur

Búin að standa mig með prýði í dag en gleymdi að stíga á vigtina í morgun. Það skiptir nú engu máli. En annars þá er ég að spá í að safna saman kolvetnasnauðum uppskriftum og smella þeim á sér síðu. Stórakonan ætlar líka að hafa augun opin og ekki er verra ef fleiri vilja vera með og senda inn uppskriftir. Ég get þá sett þær allar á síðuna ;) Fóturinn minn er rauður og blár, en miklu betri samt, get alveg labbað um núna án mikilla vandræða :D Kannski ég geti farið að stelast á Orbitrekið bráðum ;)

mánudagur, maí 03, 2004

Góðan daginn

Enn er ég á hækjunum, en get svo sem aðeins stigið í fótinn. Vil bara ekkert vera að reyna mikið á hann, frekar hlífa honum í dag og vera þá vonandi betri á morgun. Vigtin var mjög svipuð í dag og í gær, það er í góðu lagi ;) Ég vaknaði svo sem seint, alltaf erfitt að snúa næturvaktartörn yfir á venjulegan dagtíma aftur. Byrjaði daginn auðvitað á eggjum og beikoni, "morgunmaturinn" hjá mér var sem sagt klukkan 17 ;)

sunnudagur, maí 02, 2004

Ég á ekki að komast í leikfimi

Þetta er ÓTRÚLEGT. Ég missteig mig svo hrottalega í vinnunni í nótt að ég endaði á bráðamóttökunni, þurfti að fara í röntgen, sem betur fer virðist ekki vera brot, er komin með umbúðir og hækjur og má ekki stíga í fótinn í 2-3 daga. Held að það séu bara einhver álög á mér, ég á bara ekki að komast í leikfimi. En mikið djöfulli er vont að slasa sig svona, vonandi lagast þetta fljótt.

Annars var ég 88,3 kg í morgun, alltaf gott að hafa eitthvað jákvætt að horfa á ;)

laugardagur, maí 01, 2004

Við skulum bara vera glöð

Ég ætlaði sko að fara í leikfimi í gær áður en ég fór á vaktina, settist upp í bíl og keyrði á staðinn, bara til að koma að honum læstum því þeir loka nefninlega klukkan 20 á föstudögum. Oh, að hafa ekki fattað þetta fyrr, ég átti alveg að vita þetta. Svo ætlaði ég að mæta galvösk í ræktina áðan, en kallinn þurfti að eyðileggja það allt með því að minni mig á að það væri 1. maí, sem sagt frídagur og allt lokað... dem!!! Jæja, hann var nú yndislegur að stoppa mig af í að fara svo ég væri ekki að fara aðra fýluferð. Ég ætla að vona að ég komist á morgun. En það jákvæða er að vigtin sýndi 88,6 kg þegar ég vaknaði :D Get nú ekki annað en verið ánægð með það ;)