Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

fimmtudagur, desember 23, 2004

Gleðileg jól!

Gleðileg jól elsku dúllurnar mínar. Hér er kort handa ykkur:

Jólakveðja

þriðjudagur, desember 21, 2004

Nóg að gera

Jámm, maður er að reyna að klára allt fyrir jólin. það er nú eiginlega bara smá tiltekt eftir. Annars er ég bara ferlega þreytt, ekki enn alveg búin að snúa sólarhringnum almennilega við eftir næturvaktirnar. Hef ekki farið í ræktina síðan á föstudaginn og held að ég orki bara ekki að fara í kvöld. Ætla að reyna að klára að brjóta saman þvottafjallið mitt og bara reyna að ná góðum svefni svo ég geti klárað að taka til á morgun. Ætla svo bara að drífa mig í ræktina á morgun.

Mataræðið er svona lalala, það læðast upp í mig einstaka suðusúkkulaðimolar og low carb karamellur, en ég er samt alls ekkert í neinu svaka sukki. Hins vegar held ég að takmarkið núna verði bara að halda þyngdinni, er ekki alveg með orkuna 100% til að taka átakið mitt föstum tökum núna.

Jæja, ætla að elda fyrir liðið (og sjálfa mig) og kíki svo bloggrúntinn seinna í kvöld stelpur ;)

sunnudagur, desember 19, 2004

Smá ljósglæta ;)

Fór í búðir áðan og keypti mér tvær peysur á niðursettu verði og mátaði líka buxur sem ég reyndar keypti ekki núna. En ég er komin niður í stærð 40 ;D Ég man bara ekki eftir að hafa verið í þessari stærð áður, svei mér þá.

Æ bleeeee

Þetta lýsir líðan minni í dag. Steig á vigtina og var ekki ánægð og ætla ekki einu sinni að setja töluna hér inn. Ætla bara að bíða fram á föstudag, þ.e. aðfangadag og hafa hana svona lokamælingu fyrir hátíðarnar. Fer að skrifa aftur inn mataræðið mitt þegar næturvaktirnar eru búnar.

Annars er ég búin að panta far heim til Íslands. Við Elísa komum til landsins 26. desember (annar í jólum) og förum aftur út 2. janúar. Afi verður jarðaður 28. desember. Ég er voða fegin að vera búin að ganga frá þessu.

Best að kíkja smá bloggrúnt dúllurnar mínar, er búin að vanrækja ykkur svo. Og takk fyrir hlýju orðin, þau ylja manni um hjartaræturnar.

laugardagur, desember 18, 2004

Ógeðslega óánægð með mig

Hef bara sjaldan verið svona pirruð út í mig. Ég missti mig algjörlega í nótt. Úðaði í mig piparkökum og hlaupkörlum og líka einhverjum súkkulaðikonfektmolum. Afsakaði mig alltaf með því að þetta væri vegna þess að mér liði illa út af afa mínum, en það er bara engin afsökun. Ég hefði VEL getað staðið mig í mataræðinu þrátt fyrir að mér leið illa út af afa. Þetta var bara afsökun til að geta étið og étið. Lélegt af mér. Enda er ég svo hundfúl út í mig núna, sérstaklega að gera þetta daginn fyrir vigtunardag. Ekki á ég von á að vera grammi léttari á morgun en ég var fyrir viku. Arg!

Jæja, þá er maður búinn að fá útrás. Þá er bara að standa sig vel í dag, get það sko alveg. Ætla ekki einu sinni að skrifa niður mataræðið mitt í gær eða reyna að reikna út kaloríufjölda, hann var allavegana MIKILL.

Annars er ég líklegast á leiðinni til Íslands á milli jóla og nýárs, afi verður væntanlega jarðaður þá. Ég tek þá Elísu með mér.

föstudagur, desember 17, 2004

Sorgmædd

Afi minn dó í dag :( Ótrúlega er þetta nú samt erfitt þó að maður hafi alveg búist við þessu. Held ég skrifi ekki mikið meira núna. Hafið það bara gott stelpur, ég læt heyra í mér betur seinna.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Kolvetnabombudagur

Uss og svei, jájá. Ákvað að gleyma bara megruninni í dag. Stúss, stúss, búðarráp og mikið að gera. Í hádeginu settist ég niður á kaffihús með vinkonu minni og fékk mér einhverskonar langloku með rækjum. Svo fengum við pakka frá tengdó og þar var líka Apollólakkrís (sem reyndar verður geymdur til jóla) og svo Síríus rjómasúkkulaði sem ég bara stóðst engan vegin ;) Fékk mér svona um 60 grömm af því. Svo fékk ég mér líka 10 litlar piparkökur. Síðan ætla ég að toppa þetta með því að fara á Bridget Jones í bíói í kvöld og fá mér eitthvað smá gúmolaði þar. Sem sagt bara frídagur í dag og ég ætla ekkert að hafa samviskubit yfir þessu. Nenni ekki að skrifa inn matseðilinn, er komin upp í svona 1550 kkal, núna og það eiga einhverjar eftir að bætast við á eftir þegar ég fer í bíó. En ég er ánægð með eitt, og það er að ég hef ekki lengur þörf fyrir að gjörsamlega klára það nammi sem til er ;)

Tata görlís ;)

Lilja, ekki dugleg í mataræðinu í dag en samt í ágætis skapi ;)

miðvikudagur, desember 15, 2004

Úff, erfiður dagur, en samt ágætur ;)

Ja, skal bara viðurkenna að mataræðið var ekkert alveg æðislegt í dag. Það er bara búið að vera svo mikið að gera hjá mér í dag að ég hef því miður ekkert planað mataræðið mitt í dag og bara étið það sem mér hefur dottið í hug. Var að vinna á morgunvakt, fékk reyndar að fara aðeins fyrr því að stóra stelpan mín var ein heima lasin. Svo þurftum við að sækja litlu krakkana og síðan drifum við okkur í búðir að kaupa jólagjafir. Úff, það er sko ekkert grín að vera með tvo litla þreytta krakka í búðum þegar maður er búinn að þvælast um í 1-2 tíma. Þannig að við drifum okkur bara á McDonalds, keyptum mat og fórum með hann heim og átum þar í rólegheitum. Síðan var ég að dútla við að klára heimaföndruðu jólagjafirnar og pakka inn öðrum. Ég datt svolítið í nammið, aðallega low carb nammið og harðfiskinn (takk elsku mamma), en reyndar líka nokkra lakkríkonfektsmola... oh hvað þeir eru góðir ;) Ég hef samt voða litlar áhyggjur af þessum degi, á ekki von á að ég þyngist neitt gífurlega þrátt fyrir þetta. En svona var matseðillinn:

Morgunmatur: 125 ml léttjógúrt með mangó, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L, salami og osti.
Hádegismatur: Ferskt salat með einhverjum rækjusýnishornum (ekki var nú örlætið mikið á þeim bæ) og smá dressing.
Miðdegisverður: McDonalds Grilled chicken bacon ranch salat með dressing.
Kvöldsnarl: Harðfiskur með L&L.
Millibiti: 1 pk Läkerol cactus, 2 Pecan Delight, fullt af Crispy Miniatures (voru að læðast upp í mig yfir allan seinnipartinn og kvöldið), ca 4 lakkrískonfektmolar.

Kaloríurnar urðu auðvitað allt of margar, eða um 1760 kkal., og svo gerði þetta um 60 grömm kolvetni, sem er alveg ok.

En það er gott að vera búin að kaupa flestar jólagjafirnar, þarf að drífa í að senda þær helst strax á morgun.

Afi er hins vegar ekki betri og í raun ekki búist við að hann verði það neitt aftur :( Vildi óska að ég væri á Íslandi núna svo ég gæti hitt hann áður en hann kveður. En hann veit að ég hugsa til hans, og við öll hér.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Nammi nammi!

Mamma og pabbi sendu okkur pakka með jólagjöfum og fullt af nammi, harðfiski og hangikjöti. Æðislegt sko. Og hún mamma mín var svo yndisleg að senda með low carb nammi fyrir mig og low carb pizzumix. Dagurinn í dag varð því svolítið drjúgur þar sem ég datt aðeins í harðfiskinn og low carb nammið, en ég fór líka í ræktina. Komst reyndar ekki í Flæði og jafnvægi en fór bara í Aerobic tíma í staðin. Svona var dagurinn minn:

Morgunmatur: heit samloka með skinku og osti (Lindbergbrauð).
Hádegismatur: 2 low carb brauðbollur með L&L og bananasneiðum / L&L, kjúklingabringu og bræddum osti.
Miðdegisverður: Þurrsteikt nautahakk með ísbergsalati.
Kvöldsnarl: 45 gr harðfiskur með L&L.
Millibiti: Ógeðslega gott low carb nammi sem heitir Pecan Delight (karamella með hnetum og súkkulaði yfir), 4 stk af því, og 5 litlir low carb súkkulaðimolar sem kallast Crispy Miniatures, 2 Appollólakkrísmolar.

Þetta varð alveg um 1570 kkal. og 41 gramm kolvetni. Aðeins of mikið af kaloríum, en hey, ég datt þó ekki í Appollólakkrísinn og Piparpúkana, sem mér finnst alveg ógeðslega gott, sérstaklega lakkrísinn sko :S

Annars er afi minn ekki mjög hress núna, eiginlega bara svakalega veikur og getur alveg brugðið til beggja vona :(

mánudagur, desember 13, 2004

Komin heim af kvöldvaktinni

Þetta var bara fín kvöldvakt, ágætt að eiga svona góðar kvöldvaktir inn á milli. Gleymdi að taka með mér nesti, en elsku kallinn minn kom með low carb brauðbollur til mín um kvöldið ;) Svona var dagurinn:

Morgunmatur: Enginn - svaf.
Hádegismatur: 125 ml léttjógúrt með ananas, 2 sneiðar Lindbergbrauð, önnur með lifrarkæfu, hin með L&L og roastbeef.
Miðdegisverður: Norsk jólapylsa með smá rófustöppu, 1 lítil kartafla og smá brún sósa.
Kvöldsnarl: 2 low carb brauðbollur, önnur með L&L og osti, hin með L&L og bananasneiðum.
Millibiti: 1 epli.

Samtals var þetta um 960 kkal. og 58 grömm kolvetni. Jámm, einstaka sinnum verða dagarnir svona léttir en það er nú ekki oft. Klukkan er svo margt núna að ég held ég fái mér ekkert meira að borða, er heldur ekkert svöng. Fæ mér bara góðan morgunmat í fyrramálið.

Það var engin líkamsrækt í dag, svaf bara í morgun og svo var ég náttúrulega á kvöldvakt. En á morgun er Flæði og Jafnvægi tími sem ég ætla í ;)

sunnudagur, desember 12, 2004

Smá nammikvöld í kvöld

Amm, ég ákvað að hafa smá nammikvöld í kvöld. Dirty Dancing er í imbanum á eftir, hún er bara eitthvað svo æðisleg

En svona er matarplanið:

Morgunmatur: 1 léttjógúrt með hindberjum, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L, skinku og osti.
Hádegismatur: Grískt salat með kjúklingi.
Miðdegisverður: Nautastrimlar og wok grænmeti, smá rjómasletta sem sósa.
Kvöldsnarl: 1 low carb brauðbolla með L&L, skinku og osti.
Millibiti: 2 brjóstsykurmolar, 1 lítið hlaup, 1 snickers.

Samtals gerir þetta um 1250 kkal. og 75 grömm kolvetni. Sleppur bara mjög vel þrátt fyrir nammið. Það er nefninlega alveg hægt að plana nammið inn í þetta, það er bara helst að kolvetnin verði aðeins í hærra laginu, en það ætti ekki að gera mikið svona einu sinni.

Ánægð með vigtina ;)

Já, ég er sko ánægð með vigtina og það er greinilegt að það er ekki að skemma neitt að bæta inn þessum kolvetnum núna. Talan var 73,0 . Bara eitt kíló í viðbót pg þá er ég búin að ná 72 kílóa markmiðinu mínu. Ég er sko himinlifandi, sérstaklega þar sem fyrst eftir að ég breytti mataræðinu svona þá þyngdist ég aðeins og fór aftur upp í 75, en svo hefur líkaminn greinilega náð jafnvægi aftur og þetta virðist ganga svona glimrandi vel . En miðað við síðasta sunnudag þá hafa farið 1,5 kg þessa viku, ég var 74,5 kg þá.

Skrifa meira seinna í dag skvísur .

laugardagur, desember 11, 2004

Vigtunardagur á morgun

Ég hlakka nú bara til að vigta mig á morgun. Búin að vera rosalega dugleg og dagurinn í dag var engin undantekning. Fór í ræktina og tók Orbitrekk og tæki, og hef borðað alveg rétt. Matseðillinn var svona:

Morgunmatur: 125 ml léttjógúrt með apríkósum, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L, skinku og osti.
Hádegismatur: Grískt salat með kjúklingi.
Miðdegisverður: Nautakjöt með wok grænmeti, smá hvítlaukssmjör (reyndar L&L sko ;).
Kvöldsnarl: 2 low carb brauðbollur, önnur með L&L, skinku og osti, hin með L&L og bananasneiðum.
Millibiti: 1 epli, 1 pk Läkerol salvi.

Samtals gerði þetta um 1260 kkal. og 60 grömm kolvetni. Jömm, hvað epli eru góð. Aldrei fannst mér þau svona góð hér áður fyrr

Takk fyrir öll kommentin stelpur, þið eruð æðislegar. Fáið allar klettaknús:

föstudagur, desember 10, 2004

Aftur komin helgi ;D

Ég elska föstudagskvöld, vitandi að öll helgin er framundan ;) Annars er ég bara mjög jákvæð þessa dagana og líður vel. Ég er sko búin að klifra vel upp á bleika skýið mitt aftur og svíf auðveldlega áfram. Fór í ræktina áðan í pallatíma og púlaði svakalega vel, alveg á fullu allan tímann. Mataræðið gengur líka svona glimrandi. Svona var dagurinn minn í dag:

Morgunmatur: 125 ml léttjógúrt með skógarberjum, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L og osti.
Hádegismatur: 2 low carb brauðbollur með L&L, skinku og osti annars vegar og L&L og bananasneiðum hins vegar.
Miðdegisverður: Kjúklingabringa með grísku salati og kesamdressing.
Kvöldsnarl: 1/2 epli.
Millibiti: 2 litlar sneiðar sólkjarnabrauð, önnur með lifrarkæfu og hin með L&L og osti, 1 pk Läkerol salvi.

Þetta gerði um 1220 kkal. og 65 grömm kolvetni. Kvöldsnarlið var óvenju lítið hjá mér, en miðdegisverðurinn var líka frekar seint hjá mér í kvöld. Ég fékk mér í staðin sólkjarnarbrauð á milli hádegismatsins og miðdegisverðarins.

Jæja, ætla að kíkja aðeins bloggrúntinn og svo bara finna mér einhverja góða mynd að horfa á og slappa af í sófanum ;)

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ógeðslega er ég dugleg, jeeeej ;D

Ég er nú bara ekkert smá stolt af sjálfri mér. Það var jólaskemmtun hjá bekknum hennar Elísu í kvöld og ég bakaði pönnsur til að taka með þangað. Það flóði náttúrulega allt í kökum og konfekti þar... en ég fékk mér ekki einn einasta bita!!! Ég fékk mér ekki einu sinni smakk af pönnukökunum sem ég bakaði sjálf, hvorki hér heima eða á skemmtuninni. Ég var svo sniðug að ég tók bara með mér hollt nesti; tvær low carb bollur með áleggi, og 0,5 L af TAB X-tra. Þessir Norðmenn eru alltaf með saft alls staðar... jú og kaffi, en ég drakk bara mitt TAB X-tra. Þannig að mér finnst ég hafa verið svakalega dugleg í dag ;) Fór að vísu ekki í ræktina, en ég fór í gær svo það er í góðu lagi. Svona var dagurinn minn:

Morgunmatur: 125 ml léttjógúrt með ananas, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L og osti.
Hádegismatur: 2 sneiðar Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Miðdegisverður: 2 low carb brauðbollur, önnur með L&L, skinku og osti, hin með L&L og bananasneiðum.
Kvöldsnarl: Nautakjöt með wok grænmeti og 0,5 dl Kesam sem sósu.
Millibiti: Ca 40 grömm low carb súkkulaði, 1 pk Läkerol salvi.

Samtals var þetta um 1270 kkal. og 51 gramm kolvetni. Fínn dagur bara.

En Arna mín litla er ENN lasin, búin að vera með háan hita síðan aðfaranótt þriðjudagsins. Hún er nú ekki með mikinn hita á daginn, en hann hækkar á kvöldin. Áðan var hún með 40,4 og þá gaf ég henni nú paracetamol. Samt hefur hún verið ótrúlega hress, miðað við að vera með svona háan hita. Það var eiginlega bara rétt áðan sem hún rumskaði og var óróleg og eiginlega með smá óráði, kófsveitt og heitt... og þá gaf ég henni paracetamol. Ég finn að hún er minna heit núna og hún sefur rólega. Hóstar að vísu slatta af og til. Ef hún fer ekki að lagast almennilega verðum við líklega að kíkja til dokksa og láta athuga þetta. Hún er sko EKKI vön að vera svona lengi lasin þegar hún verður lasin. Hefur bara varla neitt verið á leikskólanum þessa vikuna :S

Jæja, best að kíkja smá bloggrúnt stelpur, luvja ;D

miðvikudagur, desember 08, 2004

Styttist í helgina

Ótrúlegt hvað dagarnir líða hratt núna. Mér finnst helgin bara nýbúin og svo er fimmtudagur á morgun. Jájá, mér finnst það reyndar allt í lagi, vildi bara að helgin væri ekki eins fljót að líða ;) Arna litla mín er enn lasin svo ég var heima með hana í dag og verð með hana heima á morgun, svo ég fer sem sagt bara ekkert í vinnuna þessa viku :S Bjöggi er nefninlega á einhverju námskeiði núna svo hann á mjög erfitt með að vera heima með veikt barn. Æ, það er svo sem ágætt að kúrast með litlu skottuna sína ;)

Bryndís, takk fyrir góðu uppástunguna sem þú komst einhverntíman með. Ég bakaði bollur úr low carb brauðmixi og það er bara snilld. Skipti bara deiginu akkurat í 18 hluta, en það er talað um að brauðið dugi í 18 meðalsneiðar og þá eru 3 kolvetnagrömm í hverri sneið. Sem sagt þá veit ég að það eru akkurat 3 kolvetnagrömm í hverri bollu ;) En þetta var svakalega gott, fékk mér nýbakaða brauðbollu áðan með L&L, skinku og osti, namm namm ;D

Svo verð ég nú bara að segja að það er ofboðslega gaman að borða ávexti aftur. Ég hef reyndar aldrei verið mikil ávaxtamanneskja, en í dag fékk ég mér smá banana ofan á brauð (það hefur mér reyndar alltaf fundist gott) og svo hálft epli áðan. Mér fannst nú bara eplið eins og hið besta sælgæti, svooooo sætt, hehehe. Ég ætla bara að vona að þessar viðbætur og breyting á mataræðinu mínu beri árangur, finnst svo gott að hafa þær með, hehehe.

En svona leit dagurinn út:

Morgunmatur: 125 ml léttjógúrt með hindberjum, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L og osti.
Hádegismatur: 2 sneiðar Lindbergbrauð, önnur með L&L, roastbeef og osti, hin með L&L og banansneiðum.
Miðdegisverður: Nautakjöt með steiktu grænmeti, smá rjómasósa.
Kvöldsnarl: 1 low carb brauðbolla með L&L, skinku og osti, 1/2 epli.
Millibiti: 28 grömm low carb súkkulaði, 25 gr Lindberg karamellustöng, 1 pk Läkerol cactus.

Samtals gerði þetta um 1230 kkal. og 60 grömm kolvetni.

Ég dreif mig í ræktina áðan og það var bara frábært. Var í fínu formi og púlaði vel á Orbitrekkinu og tók vel á í tækjunum. Vá hvað ég finn mikinn mun á magaæfingunum hjá mér, mér finnst bara voða lítið mál að gera þær núna. Er farin að gera 3x20, kannski bæti ég við einni lotu í viðbót næst og geri 4x20. Bara leiðinlegt þetta magaspik sem er utan yfir vöðvana hjá manni, hehehe.

En já, það verður áhugavert að sjá hvað vigtin segir á sunnudaginn, en reyndar ætla ég ekki að taka neitt mark á þessu fyrr en sunnudeginum þar á eftir. Þá er komin ágætis reynsla á þetta.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Jógúrt er gott ;)

Mmm og namm, mér finnst æðislegt að geta fengið mér jógúrt. Svo er jógúrtin hér í svo heppilega stórum pakkningum, 125 ml, ekki eins stórar og á Íslandi. Mjög mátulegt að fá sér eina svona jógúrt og svo brauðsneið með.

Annars þá ætla ég að gefa nýja mataræðinu mínu smá tíma áður en ég fer að dæma hvernig það virkar. Þegar maður er á kolvetnasnauðu þá náttúrulega losar líkaminn sig við kolvetnabirgðirnar í líkamanum, en þær eru bundnar vatni í vöðvum og lifur. ÞEssi forði bundinn vatni vegur um 2 kg. Þegar maður svo borðar meira af kolvetnum þá byggir líkaminn upp þessar birgðir aftur. Þannig að ég býst við að líkaminn minn sé þá aðeins að byggja upp aftur kolvetnabirgðirnar og ég ætla ekki að reikna með miklu þyngdartapi fyrr en eftir kannski viku í fyrsta lagi.

Annars leit dagurinn svona út:

Morgunmatur: 125 mL apríkósu-léttjógúrt, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L og roastbeef.
Hádegismatur: 1 stór sneið sólkjarnabrauð með L&L, roastbeef og osti.
Miðdegisverður: Nautakjöt með pönnusteiktu Wok grænmeti og smá rjómasósu.
Kvöldsnarl: 2 sneiðar Lindbergbrauð, önnur með L&L, roastbeef og eggjum, hin með léttsultu og osti.
Millibiti: 25 gr Lindberg-karamellustöng, 14 gr low carb súkkulaði, 1 pk Läkerol salvi.

Samtals var þetta um 1160 kkal. og 64 grömm kolvetni.

Ég fór ekki í ræktina í dag. Ég átti eiginlega að vera á kvöldvakt, en Arna var lasin svo ég var heima í dag. Bjöggi var nefninlega á námskeiði og hefði ekki verið kominn heim áður en kvöldvaktin byrjaði. Svo ekki gat ég farið í ræktina í morgun og mér fannst bara einum of hallærislegt að fara í kvöld þegar ég hefði átt að vera í vinnunni. Í raun ekkert að því, en ég bara nenni ekki einhverjum kjaftasögum ef maður hefði rekist á einhvern. En ég ætla að drífa mig annað kvöld.

Þarf að fara að skoða kolvetnainnihaldið í ávöxtunum núna bráðlega og sjá hvað ég get leyft mér af þeim ;)

Og já, afi er betri, sem betur fer. Vonandi klórar hann sig í gegnum þetta eina ferðina enn.

mánudagur, desember 06, 2004

Breytingar

Eins og ég hef minnst áður þá er búin að taka þá ákvörðun að bæta við kolvetnum á matseðilinn minn. Ætla að leyfa mér t.d. léttjógúrt og einhverja ávexti. Bíð aðeins með morgunkorn og svoleiðis, það er svo svakalega kolvetnaríkt ;) Eins ætla ég að halda áfram að forðast hrísgrjón og pasta. Stefnan er núna að halda sér undir ca 60 grömmum af kolvetnum á dag og sjá hvernig það gengur. Einnig ætla ég að reyna að velja frekar flókin kolvetni heldur en einföld, eða þá miða við sykurstuðulinn ;)

Svona var dagurinn minn í dag:

Morgunmatur: 2 sneiðar Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Hádegismatur: 2 sneiðar sólkjarnabrauð með L&L og osti, 125 mL léttjógúrt með skógarberjum.
Miðdegisverður: Grískt salat með ristuðum furuhnetum, þurrsteikt nautahakk og kesamdressing.
Kvöldverður: Eggjahræra með rækjum og osti.
Millibiti: Barasta enginn í dag.

Samtals var þetta um 1300 kkal. og 47 grömm kolvetni. Engin leikfimi í dag, bara nennti ekki þar sem ég fór í gær.

Annars á ekki af manni að ganga núna. Var að fá þær fréttir að afi minn væri kominn á spítala með alvarlega lungnabólgu, en hann er með svo léleg lungu karlinn :( Er bara ansi hrædd um hann :( Vonandi nær hann sér.

Hjálpi mér öll heilög hamingja :S

Jesús stelpur, ég fór áðan niður að læsa útidyrahurðinni, fór svo upp og skellti mér í bað. Þá heyri ég þesi þvílíku læti hér fyrir utan, öskur og ég veit ekki hvað. Rýk upp úr baðinu og kallinn kemur inn á bað til mín og tilkynnir mér að það séu fullt af vopnuðum lögregluþjónum úti í portinu hjá okkur. Með hjálma og byssur og alles. Byssum beint að öllum gluggum og dyrum hjá nágrannanum, þar sem þeir svo brjóta upp hurðina og draga hann út og handjárna og hann svo færður í burtu í lögreglubíl stuttu síðar. Þeir eru svo eitthvað að brasa þarna inni og koma út með eitthvað vöðlað inn í dagblað, setja það í skottið á öðrum lögreglubíl og fara svo.

Kræst, ég er bara í sjokki hér, skelf og titra hreinlega. Fyrst þeir mæta hér í fullum skrúða með vopn og allar græjur þá getur þetta ekki hafa verið eitthvað minniháttar mál, þeir hljóta að hafa grunað hann um að vera með vopn.

Sjitt, eins gott að ég var búin að fara niður og læsa þegar þetta gerðist og eins gott að það varð ekkert skotdrama úr þessu. Almáttugur, og hér á maður heima.

Þessi nágranni hefur nú alltaf virst saklausasta grey, en hann á sko mjög dularfulla vini sem okkur hér hefur verið ansi illa við. Hvað í andskotanum ætli hafi gengið á eiginlega, hvað ætli hann hafi gert??? Fokk!!! Ég ætla að tala við leigusalann við fyrsta tækifæri og spyrja hvort þessi maður muni búa hér áfram, er sko EKKI vel við það með þrjú ung börn á heimilinu.

Þá hefur maður tekið þátt í bíómynd, enda var þetta þokkalega óraunverulegt eitthvað, veit ekki alveg hvernig mér líður, skjálfandi og titrandi með hjartslátt og guðs lifandi fegin að elsta stelpan fékk að gista hjá vinkonu sinni akkurat í nótt og þurfti ekki að upplifa þetta. hin tvö sváfu sem betur fer þrátt fyrir lætin.

Jæja, best að reyna að róa sig aðeins :S

sunnudagur, desember 05, 2004

Komið kvöld

Þá er víst best að setja inn skýrslu dagsins, Er bara mjög ánægð með mig í dag, ekkert svindl og fór bæði í ræktina og í klukkutíma labbitúr með krökkunum. Matseðillinn var svona:

Morgunmatur: 2 sneiðar sólkjarnabrauð, önnur með lifrarkæfu og gúrkusneiðum og hin með L%L, skinku og osti.
Hádegismatur: 2 sneiðar Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Miðdegisverður: Nautahakk og grænmeti steikt á pönnu, smá rjómasletta sem sósa.
Kvöldsnarl: 1,5 dl Kefir með strásætu, 1 sneið Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Millibiti: 28 gr low carb súkkulaði, 9 low carb karamellur, 1 pk. Läkerol salvi.

Samtals gerir þetta u.þ.b. 1370 kkal. og 56 grömm kolvetni.

Ég er að hugsa um að fara kannski að bæta inn léttjógúrt með einhverjum ávöxtum, eða einhverju slíku fyrst ég ætla að prófa að auka kolvetnin smá. Kíki kannski á úrvalið á morgun ;)

Vigtun og mæling

Talan var 74,5 kg, aftur og ætli ég verði ekki bara að vera ánægð með það. Síðasta vika einkenndist svolítið af konfektmolum og krembollum, og auk þess er ég á bullandi túr sem eykur ekki beint á þyngdartapið. En ég dró líka upp málbandið og mældi spikið mitt og það minnkar enn ... nema reyndar kálfarnir sem einhverra hluta vegna fóru aðeins upp á við. Örugglega bara vöðvarnir að stækka

En hér eru ummálsmælingarnar:

Brjóst:..............97 cm (98)
Mitti:.................74 cm (74,5)
Magi.................93 cm (96)
Mjaðmir:............93 cm (94)
Upphandleggur:..30 cm (31)
Læri:..................58 cm (58)
Kálfi:..................38 cm (37,5)

Oh, alltaf einhver hrollur í manni, samt er sól og alveg 7,5 stiga hiti úti. Mig langar samt ekkert út, en vonandi hlýnar mér á eftir svo ég geti druslast í smá labbitúr með krakkana. Svo ætla ég reyndar í ræktina seinna í dag.

laugardagur, desember 04, 2004

Laugardagur til lukku

Eða ég vona það allavegana. Bara verið ósköp venjulegur dagur með svolitlu low carb nammi ;) Svona leit hann út:

Morgunmatur: 2 sneiðar Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Mádegismatur: Grískt salat með ristuðum furuhnetum og kjúklingi, Kesamdressing.
Miðdegisverður: Þurrsteikt nautahakk með fersku grænmeti, smá dressing.
Kvöldsnarl: 1 sneið Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Millibiti: Ca 55 grömm low carb súkkulaði, 6 low carb karamellur, 1 pk Läkerol cactus.

Þetta gerði svo mikið sem um 1485 kkal. og 33 grömm kolvetni. Það verður áhugavert að sjá hvað vigtin segir á morgun. undanfarin vika hefur einkennst svolítið af konfektmolum og krembollum en það þýðir ekkert að fárast yfir því núna. Eiginlega verð ég sátt ef ég bara verð komin aftur niður í 74,5 kg (vonivonivon )

Ég fór ekki í leikfimi í dag, þurfti að stússast svo mikið, en ætla á morgun.

Annars var ég að horfa á skemmtilegan þátt í sjónvarpinu áðan, um hinn fullkomna afturenda, eitthvað sem ég hef sko ekki, heh . En það var einmitt rætt um hvað brjóst eru ekki lengur aðalkyntákn kvennanna, heldur þrýstinn og lögulegur bossinn . Það var sérstaklega fylgst með þremur konum í þættinum sem vildu laga rassinn á sér. Ein valdi fitusog, önnur einhverja rafmeðferð og sú þriðja hefðbundna líkamsrækt og mataræði með aðstoð einkaþjálfara. Allar náðu árangri sem þær voru sáttar við.

Annars fór ég að hugsa að mig bara virkilega langar núna að láta laga á mér magann, kannski ég geri það einhverntíman þegar ég er komin í 70 kg eða 68, hehe. Áður þá var ég nú alveg á því að mér væri nokk sama um þennan hengimaga, bara ég gæti falið hann í buxunum, en núna er mig farið að langa að geta jafnvel verið í BIKÍNÍ á ströndinni á sumrin. ÉG!!! Í BIKÍNÍ!!! Hef sko aldrei verið bikínimanneskja. En ég held nefninlega að ég myndi virka miklu grennri ef þessi hengimagi minn væri ekki þarna, er viss um að buxnastærðin mín myndi minnka um heila stærð við það. Kannski er maður bara orðinn allt of hégómagjarn

Feitur föstudagur

Nei nei, ekkert alvarlega. Búin að standa mig mjög vel fyrir utan að ég fékk mér svo hnetur til að narta í í kvöld. Ja, ég reikna það samt ekki sem neitt svindl, hnetur eru ekkert á bannlista, en þær eru bara svo helvíti hitaeiningaríkar. Það eru um 600 kkal. í hverjum 100 grömmum af flestum hnetum, maður bara svitnar við tilhugsunina Svo dagurinn varð svolítið ríkur fyrir vikið.

Annars er ég eiginlega að prófa mig áfram með að leyfa mér aðeins fleiri kolvetni en ég hef gert undanfarið, hef ekki verið að festa mig alveg undir 40 grömmunum síðastliðna daga. Ætla að sjá hvort þetta skemmi alveg kúrinn eða hvort ég þoli fleiri kolvetni. Ágætt að vera með smá tilraunastarfsemi af og til, sérstaklega þegar maður er kominn með leið og hefur smá þörf fyrir tilbreytingu. Nú, ef ég bara þyngist og þyngist þá verð ég aftur ströng á kolvetnunum. Hef samt á tilfinningunni að þetta sé allt í lagi. Ó well, það kemur í ljós. Svona var dagurinn:

Morgunmatur: 2 sneiðar Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og osti.
Hádegisverður: Ferskt salat með rækjum og smá dressing.
Miðdegisverður: Grískt salat með kjúklingi og furuhnetum, Kesamdressing.
Kvöldsnarl: 1 sneið Lindbergbrauð með L&L og roastbeef.
Millibiti: 1 sneið Lindbergbrauð með léttsultu og osti, 1 pk Läkerol cactus, 1 pk Läkerol special, pistasíu- og cashewhnetur.

Þetta gerði samtals um 1700 kkal. og 58 grömm kolvetni. Fór líka í ræktina, í pallatíma og spriklaði sko þvílíkt mikið ;)

Annars er ég nú búin að komast að því að ég er bara tágrönn, allavegana miðað við þessa.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Er að komast í gang

Jájá, þetta er allt að koma aftur ;) Var á kvöldvakt og þar reyndar freistaðist ég í nokkra konfektmola, skamm á mig En að öðru leyti var dagurinn fínn. Er á morgunvakt á morgun og ætla sko ekki að freistast í neina helvítis konfektmola þá. Dagurinn var svona:

Morgunmatur: Sólkjarnabrauð með L&L, roastbeef og eggjum.
Hádegismatur: Svaf á mínu græna.
Miðdegisverður: Soðinn þorskur með soðnu grænmeti og hvítri sósu.
Kvöldsnarl: Lindbergbrauð með L&L, roastbeef og osti.
Millibiti: Nokkir konfektmolar, 1 pk Läkerol salvi, 1 pk Extra brjóstsykur WildFruit.

Samtals var þetta um 1000 kkal. og reyndar of mikið af kolvetnum, eða um 62 grömm. Það verður bara að hafa það. Þoli ekki þegar sjúklingarnir þurfa alltaf að gleðja okkur starfsfólkið með konfekti

Well, kíki smá bloggrúnt og fer svo að sofa.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Dugleg hvað? *hóst*

Þessi dagur fór nú bara til fjandans matarlega séð. Byrjaði voða vel, en svo fórum við í verslunarferð til Svíþjóðar og ég keypti mér krembollur og hnetur sem ég gæddi mér svo á í kvöld Ekki grennist ég í dag allavegana, það er nokkuð ljóst. Hneturnar eru svo sem ekkert óhollar, en þær eru bara svo fjandi orkuríkar Og krembollurnar urðu ÞRJÁR talsins, sem hækkar kolvetnamagnið allt of mikið Hvað er eiginlega að koma yfir mig? Held að ég sé bara komin með smá leiða á þessari megrun. Ég er samt ekki að detta algjörlega í það og ég nenni eiginlega ekkert að hafa neitt samviskubit yfir þessu, hef á tilfinningunni að ég þyngist ekki, standi þá frekar bara í stað. Fór líka í ræktina og tók veeeel á Púlaði þvílíkt á Orbitrekkinu sko, fór alveg upp í 80 í hraðanum, stundum er ég bara í einhverju svona stuði. Oftast held ég hraða í kringum 65-68 allan tímann, en núna var ég 70-80 megnið af tímanum, alveg á fullu sko.

En já, ef ég ætla að koma mér niður í 72 kg fyrir jól þá þarf ég nú alldeilis að taka í rassgatið á sjálfri mér. Ég hef bara ekki komið mér í sama skipulagið og ég var í, þarf að reyna að laga það. Verð svaka dugleg á morgun. Síja leitör