Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

mánudagur, desember 18, 2006

Nei, nei, er sko ekkert að svindla ;)

Alls ekki. Mér gengur bara glimrandi. Hef bara voða lítið gefið mér tíma í tölvuna, nóg að gera í desember.

En með átakið þá er ég bara dugleg í ræktinni hjá einkaþjálfaranum mínum og ég passa mataræðið mjög vel og ég er satt að segja búin að léttast um 5 kg síðan ég byrjaði á þessu... sem eru hvað... fyrir ca tveimur vikum síðan? Ég ætla EKKI að fá þetta á mig aftur. Ég kvíði ekki einu sinni jólunum hvað mataræðið varðar núna. Vissulega ætla ég að leyfa mér að borða góðan mat, en ég ætla ekki að úða stjórnlaust í mig sælgæti og vitleysu.

Jæja, þarf að fara að klára að skrifa jólakortin ;)

miðvikudagur, desember 06, 2006

Aftur komin á fullt :D

Jæja gott fólk. Ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið hvað ég geti gert til að halda mér í gírnum og komast aftur í gott form. Hugsaði sem svo að það væri örugglega gott að prófa einhverja nýja leið, hefur oft virkað áður að breyta aðeins aðferðinni. Spáði töluvert í Danska, en hann er samt ekki að heilla mig svo mikið; of mikið af boðum og bönnum finnst mér einhvernvegin. OA er ekki fyrir mig, sé engan vegin að ég ég geti ímyndað mér einhvern æðri mátt.

Á endanum ákvað ég að fá mér bara einkaþjálfara. Málið er að ég kann alveg aðferð til að koma mér í gott form, ég hef gert þetta áður, ég kann að setja saman hollan mat o.s.frv. Mig vantar bara einhvern til að sparka í rassinn á mér, hvetja mig, einhvern sem fylgist með mér. Þannig að ég fann mér einn sem kunningjakona mín mælti með og mikið svakalega líst mér vel á hann. Hann er svo áhugasamur og viðkunnanlegur og er greinilega mikið í mun að maður nái árangri.

Ykkur finnst ég kannski skrýtin að fara að byrja á þessu núna rétt fyrir jól í stað þess að kýla á þetta eftir áramót. Ég spáði líka í það og komst að því að það væri miklu sniðugara að drulla sér strax í þetta og hafa þá smá hemil á sér yfir jólin, í stað þess að sitja allan desember og éta á sig gat með þá afsökun að maður ætli hvort sem er að taka sig á í janúar.

Ég verð kannski ekki orðin 10 kg léttari fyrir jól, en ég verð allavegana komin af stað og lundin er strax orðin mörgum kílóum léttari ;)