Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Sálartetrið svolítið slæmt

Já, það verður bara að viðurkennast, andlega hliðin er í svolítilli lægð núna. Einhvernvegin lagði maður þetta svolítið til hliðar í sumarfríinu, en núna þegar maður er kominn heim aftur og er bara að fara í rútínuna aftur, þá dembdist þetta yfir mig. Mér finnst ég bara frekar ógeðslegt núna. Finn að það er að myndast undirhaka á mér, finnst magaspikið vella út um allt, með fellingar á bakinu og vottar varla fyrir vöðvum á fótleggjum og handleggjum. Það er eiginlega enn ömurlegra að hafa verið komin í frábært form og klúðra þessu síðan svona svakalega aftur. Mér líður bara eins og ég sé virkilega FEIT, með HUGE F-i núna.

Ekki nóg með það, heldur þá finnst mér ég vera sú eina í nánustu fjölskyldunni sem er svona feit, bara gjörsamlega á skjön við hinar stelpurnar. Systir mín er grönn og æðisleg, kærasta bróður míns í flottu formi. Báðar systur kærastans míns eru tágrannar og algjörir kroppar, kona bróður hans sömuleiðis, þrátt fyrir að vera kasólétt... ja, hún var reyndar að eiga fyrir nokkrum klukkutímum bara, og ég er viss um að eftir nokkra daga verður ekki á henni séð að hún sé nýbúin að eignast barn. Svo kem ég, blobb blobb!

Svo veit ég alveg að fólk talar, svoleiðis er það bara. Ekki að það sé að meina neitt illt með því, en ég get alveg gert mér í hugarlund samræðurnar í vinnunni, í vinahópnum, í fjölskyldunni... svona þegar ég er ekki nálægt.

- Rosalega er mikil synd að Lilja sé búin að fitna svona aftur, eins og hún var nú búin að missa mörg kíló.
- Já, maður tekur alveg eftir þessu. Hún er líka ekkert að passa sig núna, sé hana oft fá sér sælgæti og eitthvað svona óhollt.
- Já, þetta er leiðinlegt.

O.s.frv.

Ég ætla nú ekki að ganga svo langt og segja að ég sé orðin þunglynd út af þessu, alls ekki. En það er svona svolítil depurð yfir mér. Ég er bara mjög óánægð með mig, líður ekki vel eins og ég er og langar minna til að hitta fólk út af þessu. Sérstaklega fólk sem ég hef ekki hitt í einhvern tíma og ég veit að sér greinilega mun á mér.

Svo bara skil ég ekki hvernig ég leyfði þessu að gerast. Ég VEIT alveg hvað gerist ef ég held mig ekki við mitt holla mataræði og hreyfinguna, þ.e. ég fitna eins og skot aftur. Ég veit svo sem hluta af ástæðunni, eins fáránlegt og það nú er. En ég hef verið svolítið feimin við að ræða þetta í nýja sambandinu mínu, fundist eins og ég sé eitthvað fáránleg ef ég er að vigta og skrifa niður hvað ég borða o.s.frv. Bara svolítið óörugg. Skil samt ekki alveg hvers vegna og ég er pirruð á mér fyrir að vera að spá svona í hvað öðrum finnst um þessa aðferð mína, því hún kemur engum við. ÉG veit hvað virkar fyrir mig og þá á enginn annar að hafa áhrif þar á... en svoleiðis hefur það nú samt aðeins verið.

Annað sem spilar inn í eru náttúrulega bara allar þessar breytingar sem hafa orðið á mínu lífi s.l. ár, en eftir situr að ég hef líka bara leyft þessu að gerast. Ég hef ekki passað að setja átakið mitt í forgang og það er það sem ég þarf að gera aftur.

Jæja, það var allavegana gott að fá að pústa smá, þó svo að það sé nú bara í tölvunni. Klukkan er að verða þrjú um nótt og ég gat bara ekki sofið. Vonandi verður morgundagurinn betri, ætla sko að drífa mig í ræktina og koma skipulagi á mataræðið. Góða nótt :*