Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

sunnudagur, janúar 09, 2005

Súkkulaði og konfekt, sælgæti og kökur

Hmm, ég hefði átt að monta mig aðeins minna í gær hvað þetta gengi vel. Þegar ég mætti á næturvaktina í gærkvöldi þá hreinlega flóði allt í konfekti og súkkulaði. Og ekki nóg með það heldur biðu líka eftir okkur afgangar af pizzu. Þetta var bara hræðilegt. Ég var því miður of veik á svellinu og fékk mér slatta af súkkulaðirúsínum og svona Ferrero Rocher súkkulaðimolum, hræðilega góðir. En stóðst samt pizzuna og neitaði að opna hinn konfektkassann sem stóð á borðinu. Hann var nefninlega alveg óopnaður og sem betur fer voru hinar stelpurnar bara sammála mér að láta hann alveg eiga sig. Liðið sem var á dagvakt og kvöldvakt í dag hefur vonandi bara klárað kassann í dag.

Já og svo ætlaði ég í ræktina en hún er bara opin frá 12-18 á sunnudögum. Nema að ég gleymdi að það var jólatrésskemmtun á vegum foreldrafélagsins í leikskólanum. Mundi eftir því nógu snemma og dreif krakkana á ballið, en komst náttúrulega ekkert í ræktina fyrir vikið. Var of sein að finna með mér nesti svo auðvitað freistaðist ég í kökurnar sem voru á boðstólnum þarna, oh! Jæja, það þýðir víst lítið að gráta Björn bónda.

En sem sagt, síðasti sólarhringur hefur verið agalegur sukk-sólarhringur. Vigtin sýndi mér samt 75,2 kg þegar ég vaknaði og ég er bara ánægð með það. Verður bara enn betri eftir viku ;)

Síðasta næturvaktin í bili í nótt, vonandi verða engar freistingar núna... og ef þær verða þá ætla ég bara algjörlega að sneiða fram hjá þeim.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home