Verð bráðum grönn aftur ;)


Var mest um 117 kg (janúar 2003), en en náði mér á tveimur árum í 68 kg. Bætti því miður aftur á mig slatta og er nú að ná þeim af aftur.
Meira um átakið mitt

þriðjudagur, september 12, 2006

Hætt í átaki!!!

Mamma gaf mér bók í dag sem heitir 101 hollráð eftir Victoriu Moran. Ég er rétt aðeins byrjuð að glugga í hana og líst rosa vel á margt sem ég er búin að lesa. Tók bara ákvörðun á staðnum.

Jamm, ég er búin að taka þá ákvörðun að hætta í átaki, megrun, matarkúr eða hvað sem fólk vill kalla þetta. Ég hreinlega nenni þessu ekki lengur. Ég nenni ekki að vera að eyða lífinu í að vera með áhyggjur af þyngdinni. Í staðin ætla ég að einbeita mér að því að vera sátt við sjálfa mig bæði andlega og líkamlega eins og ég er... ekki eins og ég ætla að vera. Hins vegar ætla ég einnig að einbeita mér að því að bera virðingu fyrir sjálfri mér og vera góð við sjálfa mig. Þá ekki með því að liggja í leti og éta sælgæti, heldur að velja mér holla fæðu og hreyfa mig. Hljómar kannski eins og átak, en ég vil fá þetta orð burt. Ég vil ekki þurfa að vera með samviskubit yfir að FALLA, ég ætla bara ekkert að vera í átaki, því þá er bókað mál að ég er ekkert að falla.

En það sem mig langar að gera núna er að prófa t.d. jóga og svipaða tíma, ásamt því að venja mig á göngutúra... og ég ætla einnig að fara í ræktina, því mér líður vel með það. En ég ætla ekki að drepast úr samviskubiti yfir að hafa ekki farið fjórum sinnum í ræktina þessa eða hina vikuna.

Mig langar líka að fara á matreiðslunámskeið, eignast fleiri matreiðslubækur, gefa mér tíma í að elda mat úr góðum hráefnum og án þess að flýta mér. Gefa mér tíma í að borða líka, bera matinn fram á fallegan hátt og njóta máltíðarinnar.

Og vitiði hvað ;) Við erum búin að kaupa þessa íbúð :D Getum reyndar ekki flutt inn alveg strax, þurfum að gera ýmislegt fyrst, en það kemur að því. Ég hlakka sko til að geta eldað í nýja eldhúsinu mínu, haft almennilegt eldhúsborð/borðstofuborð þar sem hægt er að sitja saman til borðs o.s.frv.

Jæja, hvernig líst ykkur á þetta hjá mér? Er eitthvað vit í þessu? Ég er bara orðin svo þreytt á að vera alltaf að klúðra málunum, að nú ætla ég bara ekkert að vera í neinum málum sem hægt er að klúðra. Leggja bara fyrst og fremst áherslu á að ég er alveg nógu góð eins og ég er og ef mér tekst það er ég viss um að heilsusamlegra líferni verður miklu auðveldara.

Líður strax vel bara ;)

Gluggið í þessa bók, þurfið ekkert að fara eftir öllu sem þarna stendur, en örugglega eitthvað sem hægt er að nota fyrir hvern og einn. Allavegana ætla ég að sjá hvert þetta færir mig.